Rúmlega þúsund spilarar tölvuleiksins EVE Online eru byrjaðir að streyma hingað til lands og farnir að setja lit sinn á miðborg Reykjavíkur.
EVE Fanfest hátíð CCP fer fram í Laugardalshöll um helgina, föstudag og laugardag – 6-7 maí, en fjölmargir hliðarviðburðir hátíðarinnar eru þegar farnir af stað í höfuðborginni. Auk almennra hátíðargesta er á þriðja tug blaðamanna væntanleg til landsins vegna hátíðarinnar, auk ýmissa samstarfsaðila CCP úr tölvuleikja-, nýsköpunar- og tæknigeiranum.

Fanfest er ekki bara hátíð fyrir spilara EVE Online heldur einnig nokkurskonar þjóðfundur. Dagskráin samanstendur m.a. af fyrirlestrum og pallborðsumræðum um efnahagsmál, sagnfræði og stjórnmál í EVE heiminum – auk viðburða á borð við Party at the Top of the World þar sem bandaríski plötusnúðurinn Z-Trip kemur fram og CCP Games Games þar sem keppt er í hinum ýmsu greinum sem ekki hafa hlotið náð Alþjóða Ólympíunefndarinnar.

CCP kynnir ýmsar nýjungar og þróunarverkefni á opnunardegi hátíðarinnar auk þess sem stjarneðlisfræðingurinn og YouTube stjarnan Scott Manley heldur tölu sem ber yfirskriftina How EVE Made Me an Internet Rocket Scientist.
CSM, lýðræðislega kjörið ráð EVE spilara, kemur hingað til lands í tengslum við hátíðarinnar til þinghalds. Þetta er í fyrsta sinn í rúm fjögur ár sem Fanfest hátíðin fer fram í Reykjavík. Árið 2019 fór Fanfest á flakk um heiminn og fór m.a. fram í London, Las Vegas, Sydney og Pétursborg. Fyrirhuguð Fanfest hátíð hérlendis árið 2020 var frestað vegna covid.
Hægt er að nálgast EVE Fanfest dagskrá og upplýsingar HÉR
Umræðan