Árið 1992 kom út afar forvitnileg dansplata er bar nafnið Icerave. Um var að ræða geisladisk með tónlist tileinkaðri Rave-menningunni, sem hafði á þessum tímapunkti getið sér góðan orðstír í Bretlandi og víðar.
Tónlist þessi var fáheyrð í íslensku útvarpi, en fann sér þó samastað í útvarpsþættinum B-Hliðin, sem var í umsjón Þorgils Gunnarssonar, Agga Agzilla og Þórhalls Skúlasonar. Sá síðastnefndi fór í samstarf við Skífuna um að taka saman og kynna þá grósku sem átti sér stað í íslenskri rave-tónlist. Árinu á undan hafði komið út tímamótaverkið Ruffige EP með hljómsveitinni Ajax og hafði það verk vakið upp þá von að íslensk Rave tónlist væri vel sambærileg við það sem var að finna í heitustu klúbbum Bretlands. Um ónumið land var að ræða, en þrátt fyrir óvissuna voru menn öruggir um að erfiðið ætti eftir að skila sér. Alls voru 15 lög á safndisknum og flytjendur frá hinum ýmsum áttum. Upprunalegt vinnuheiti plötunnar var alsæla, en tvíræð merking orðsins fór fyrir brjóstið á yfirmönnum útvarpsstöðvanna og neyddist Skífan til að breytt nafninu. Á geisladisknum sjálfum og fyrsta upplaginu af kassettunum mátti þó finna hið upprunalega nafn plötunnar.

Safndiskurinn fékk misjafnar móttökur gagnrýnenda, en hefur unnið sér stall sem tímamótaverk í íslenskri danstónlistarsögu. Endurútgáfan mun heita sína upprunalega nafni: Alsæla. Útgáfan mun koma út í því formi sem hún hefði upphaflega átt að koma út á, þ.e.a.s. á vínylformi. Útgáfan mun innihalda þrjár vínylplötur með lögum frá Ajax, Mind in Motion, Plan B, Soul Control, Feður Flintstones og Íslenskir tónar. Einnig verður að finna lagið Rollin like Scottie eftir Agzilla og D.J. L.S.K og nokkur vandfundin lög með Ajax. Það er alveg ljóst að þetta verður skyldueign fyrir þá sem upplifðu þetta tímabil – og einnig fyrir þá sem hafa áhuga á íslenskri danstónlistarsögu.
Forsala í fullum gangi. Hægt að kaupa vinyl plötuna HÉR. Ath mjög takmarkað upplag.
Umræðan