Klara Elías, eða Klara í Nylon eins og hún er betur þekkt, er aðeins önnur konan í sögu Þjóðhátíðar í Eyjum til þess að gefa út Þjóðhátíðarlag. EyjaNótt var samið af Klöru ásamt Ölmu Goodman og James Wong og tekið upp bæði í Los Angeles og á Íslandi.
Klara, sem heitir fullu nafni Klara Ósk Elíasdóttir, hefur starfað sem söngkona síðan í menntaskóla og flutti aftur heim til Íslands í heimsfaraldrinum eftir að hafa búið og starfað í Los Angeles í nokkur ár. Hún vinnur nú að útgáfu nýrrar plötu sem kemur út á næstu mánuðum.

„Það skiptir mig máli að ná að fanga nostalgíuna sem við upplifum þegar sumarið kemur aftur og fiðringinn í magann sem maður fær þegar maður labbar inn í dalinn í Vestmannaeyjum,“ segir hún um lagið.
„Þetta er söguleg þjóðhátíð á marga vegu en kannski helst því hún hefur ekki verið haldin í tvö ár. Mér fannst rétt að leyfa því að vera hluti af hjarta lagsins að síðustu tvö ár létu ekkert okkur ósnert. Því ef við höfum lært eitthvað á þessum skrítnu tímum er það að við vitum aldrei hvað morgundagurinn býður okkur og hvað það er mikilvægt að njóta augnabliksins og elska hverja mínútu með fólkinu okkar.“
Klara segir að ein lína úr laginu segi það best.
„Ef þetta er síðasta nóttin sem við eigum hér, þá er mér sama svo lengi sem ég er með þér.“
Umræðan