Boncyan er ný poppsveit sem skartar tveimur af reyndustu pródúserum landsins, hinum færeysku Janusi Rasmussen (Bloodgroup, Kiasmos) og Sakaris Joensen.
Saman hafa þeir unnið með mörgum af stærstu popptónlistarmönnum Íslands og unnið til ótal tilefninga og tónlistarverðlauna á innlendum og alþjóðlegum vettvangi, en þeir hafa starfað hér á landi í um 15 ár. Þá hafa þeir gefið út allskonar efni í sólóverkefnum, Janus núna síðast með plötunni Vín sem tilnefnd var til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2020 og einnig Norrænu tónlistarverðlaunanna sama ár. Þriðji liðsmaður sveitarinnar er hinn enski Tom Hannay sem hefur á undanförnum vikum getið sér gott orð fyrir sólóverkefni sitt, en lagið hans Dog Days kom út fyrr í sumar.

Turn it all around kemur út á miðnætti aðfaranótt 16. júlí 2021 og er aðgengilegt á Spotify síðu Boncyan. Sveitin segir að lagið fjalli um neikvæð áhrif samfélagsmiðla og slæm áhrif þess að lifa tvöföldu lífi í gegnum snjalltæki, í eilífum samanburði við annað fólk. Lagið er það fyrsta í röðinni af nýrri breiðskífu sveitarinnar en hún ber nafnið Deluge. Næsta stuttskífa kemur síðan út þann 6. ágúst með laginu Wait for it, en það er engin önnur en íslenska popp dívan og Netflix-stjarnan GDRN sem syngur lagið.
Aðdáendur sveitarinnar geta mætt á tónleika á Prikinu þann 21. ágúst, en miðasala hefst bráðlega á Tix.is.
Umræðan