Tónlistarmaðurinn Ragnar Ólafsson er um þessar mundir að gefa út hljómlistina sem hann samdi fyrir sjónvarpsþáttaröðina Vitjanir sem RÚV sýndi á síðasta ári. Tónlistin úr Vitjunum var tilnefnd til verðlauna í flokknum Tónlist Ársins á Eddunni 2023.
Tónlist Ragnars gegndi stóru hlutverki í Vitjunum. Áhorfendur upplifðu hljómlistina eins og sögumaður hvíslaði að þeim og drægi þá inn í frásögnina, auðveldaði þeim að fylgja söguþræðinum og hljómlistin gegndi stóru hlutverki við að undirstrika dramatík þáttanna er sögunni vatt fram.
Alls samdi Ragnar 80 mismunandi verk fyrir Vitjanir, sem hljóma í 230 mismunandi útsetningum í gegnum þáttaröðina. Sökum þess hversu tónlistin í Vitjunum er umfangsmikil, hefur Ragnar valið að gefa út tónlistina úr hverjum þætti fyrir sig. Þættir Vitjana voru átta, og hljómlist þáttanna í útgáfu Ragnars endurspeglar það. Tónlistin úr fyrsta þætti Vitjanna var gefin út á Páskadag, einu ári eftir frumsýningu RÚV á fyrsta þætti sjónvarps raðarinnar, og hljómlistin úr þáttum 2-8 verður gefin út með viku millibili yfir átta vikur frá Páskadag að telja. Tónlistina má nálgast á öllum helstu streymisveitum.
Ragnar Ólafsson gefur út tónlist sem hann semur fyrir kvikmyndir og sjónvarp undir listamannsnafninu Örlög, til að halda henni aðskilinni frá annarri tónlist sem Ragnar semur og gefur út. Hann starfar með nokkrum hljómsveitum, auk þess sem hann hefur gefið út nokkrar sólóplötur.
Það er margt á döfinni hjá Ragnari þessa dagana. Hann er að undirbúa útgáfu á áttundu breiðskífu Árstíða, auk þess sem hann er á leið í tónleikaferðalag um Pólland til að kynna lög af væntanlegri sólóplötu sinni.
Umræðan