Hljómsveitin Pale Moon var að senda frá sér lagið Parachutes. Lagið er upplífgandi en á sama tíma pínu sljóvgandi. Þetta er lag sem ætti að virka vel á ströndinni eftir að maður verður pínu móðukenndur af of mikilli sól. Mun einnig eiga vel við yfir grillinu á komandi vor- og sumar-mánuðum.
„Við djömmuðum í laginu á Íslandi þegar við vorum að undirbúa flutninginn til Spánar. Ég var að lesa beatnik ljóð um þær mundir og tók línu úr ljóði Barböru Guest (1920). (Parachutes, My Love, Could Carry Us Higher). Við vorum svo hrifin af línunni “parachutes, my love, could carry us higher” og var það fyrsta kveikjan af laginu. Við tókum þá þann lag-stubb upp á símann” segir Árni Guðjónsson meðlimur sveitarinnar.
Sveitin kom svo aftur að þessari hugmynd þegar þau fluttu til Tarragona á Spáni og hugðumst að því að taka upp plötuna. Lagið breyttist en hinn helmingur sveitarinnar, Nata samdi textann sem fjallar um þau ´Rana og Nötu þegar þau voru að flytja út og skilja við sitt fyrra líf. „Þetta snýst líka um að eiga félaga í ,,glæpum” og vera frjáls, því lífið er stutt.”
„Á meðan ferlinu stóð fór ég oft með lagið niðrá strönd til að hlusta á það þar bara til að heyra hvort útsetningin væri ekki alveg örugglega að virka segir Árni.
Gefa úr hjá AU! Records
„Já þau höfðu bara samband af fyrra bragði, sem er viss vítamínsprauta fyrir sjálfstraustið og spurðu hvort við hefðum áhuga að gefa út hjá þeim. Okkur fannst það náttúrulega bara vera hið besta mál. Þau hjá AU! munu fara með útgáfu og dreifingarmál hérna á Spáni og sjá um tónleika bókanir. Þetta er lítið og heimilislegt fyrirtæki og þau eru með skrifstofur bara í næsta nágrenni við okkur. Fólkið sem vinnur þar er mjög jarðbundið og almennilegt, og er flest tónlistarfólk sjálft.Það er ekkert verið að bjóða gull og græna skóga, það eru allir með báða fætur á jörðinni. Það besta við þetta allt saman er að okkur voru sett lokaskil. Plötuna þurfum við að klára fyrir júní þar sem hún verður pressuð á vínyl, sem tekur um það bil þrjá mánuði, og svo mun gripurinn koma út í öllu sínu veldi í September” segir Árni.
Útgáfufyrirtækið hefur strax hafið vinnu við að kynna bandið og kom sveitin nýlega fram í tónlistarþætti á Spáni sem heitir Menu Stereo og er á sjónvarpsstöðinni Movistar+ einskonar Sjónvarp símans þeirra spánverja. Í þættinum er tveim böndum skellt saman og hvort band spilar þrjú númer úr sínu prógrammi og svo taka böndin eitt tökulag saman og í lokin eldar önnur hljómsveitin ofan í hana og þátturinn endar á matarboði. Allt mjög súrrealískt en kannski ekki svo langt frá þætti Sigtryggs Baldurssonar, Hljómskálanum.
Einnig kom Pale Moon fram á tveim tónleikum nú nýverið sem báðir seldust upp. Það eru að sjálfsögðu fjöldatakmarkanir í gangi og allir með grímur. Voru seldir 35 miðar inn á hvora tónleika sem er leyfður hámarksfjöldi á Spáni. En það verður nú að teljast alveg þokkalegt fyrir algerlega óþekkt band.
„Það var algerlega frábært að koma aftur fram eftir meira en heilt ár vegna kófs og lokana. Það fer nú vonandi að sjá fyrir endann á því öllu saman” segir Árni að lokum.
Umræðan