Skýið er nýr skapandi skóli sem leggur áherslu á að kenna fjölbreytt námskeið á ferskan og hnitmiðaðan hátt. Boðið er upp á námskeið í hverjum mánuði fyrir fullorðna, börn og unglinga.
Námskeiðin eru ýmist dagsnámskeið, helgarnámskeið eða mánaðarnámskeið fyrir fólk sem vill auka við þekkingu sína og sköpunarkraft og jafnframt búa sér til ný tækifæri. Allir kennarar eru fagfólk á sínu sviði og þekktir fyrir áhugaverða nálgun í kennslu og framsögu.
Stofnendur skólans eru Edda Konráðsdóttir, viðskiptaráðgjafi, Hildur Kristín Stefánsdóttir, tónlistarkona og Unnur Eggertsdóttir, leikkona. Saman mynda þær þverfaglegt teymi og hafa þær allar áralanga reynslu af því að kenna, koma fram og stýra verkefnum innan og utan landsteinanna.

Meðal námskeiða sem eru í boði í janúar má nefna mánaðarlangt bassanámskeið fyrir byrjendur sem kennt verður af bassaleikaranum og tónlistarkonunni Ingibjörgu Turchi sem hefur spilað með mörgum landsþekktum listamönnum eins og Bubba, Stuðmönnum og Teiti Magnússyni ásamt því að semja tónlist undir eigin nafni. Einnig verður boðið upp á námskeið í R-forritun og lagasmíða og leiklistarnámskeið fyrir unglinga.
Á heimasíðunni www.skyið.is er hægt að nálgast allar upplýsingar um næstu námskeið og skrá sig. Þar eru einnig upplýsingar um þá kennara sem koma til með að kenna á næstunni og má þar sjá fjöldan allan af landsþekktum tónlistarmönnum og fleiri kennurum. Námskeiðin eru kennd í Faxafeni 10 og á Zoom.

„Hugmyndin kviknaði þegar ég og Unnur vorum að ræða að það vantaði sameiginlegan vettvang fyrir allskonar spennandi námskeið þar sem fólk gæti lært eitthvað nýtt áhugamál eða þá bætt við sig ennfrekar í sinni grein. Ég hafði sjálf verið með lagasmíðanámskeið og að kenna í hinum og þessum skólum og sama má segja um Unni og leiklistina og okkur langaði að reyna að setja þetta saman undir eitt þak. Svo fengum við Eddu vinkonu okkar til að stofna skólann með okkur og úr varð ennþá stærra batterí sem við erum hrikalega stoltar af” segir Hildur.