Kórónuveirufaraldurinn er gerður upp í nýju lagi eftir tónlistarmanninn Anton Helga Hannesson, betur þekktur undir listamannsnafninu Anton How.
„Ég var eins og margir á þessum tíma með mikinn kvíða, bæði vegna peninga og einangrunar,” segir Anton en lagið einblínir á að reyna að finna jákvæðnina aftur eftir afléttingar.
„Ég skrifaði lagið í þessu hugarástandi. Þegar við vorum að ganga í gegnum miklar samfélagsbreytingar og kvíðinn fór upp úr öllu valdi.” Textinn fjallar um depurðina og vonleysið sem fylgdi einangruninni í heimsfaraldri Covid-19 og sömuleiðis vonina eftir að samfélagið byrjaði að komast í venjulegt horf á ný. Lagið heitir 1000 smiles og kom út á Spotify í vikunni ásamt nýju tónlistarmyndbandi sem má sjá hér fyrir neðan.
Anton er þekktur sem forsprakki pönkrokk-hljómsveitarinnar InZeros og stofnandi vinsælu glamrokk hljómsveitarinnar, Diamond Thunder. Anton færir sig yfir í elektrónískt grunge í nýjasta lagi sínu eftir að hafa einblínt á rokk síðastliðin ár með hljómsveit sinni InZeros. Um er að ræða fyrsta lagið sem Anton framleiðir sjálfur en hann hefur áður unnið með pródúsentunum Hauki Hannessyni, sem var sömuleiðis gítarleikari metal hljómsveitarinnar Gone Postal, og Bjarka Ómarssyni eða sem Bo Marz, sem skrifaði nýlega undir samning hjá Sony Music.

Þetta er ekki fyrsta sóló verkefni Antons en hann hefur áður gefið út smáskífuna Ó Guð vors hlands sem innihélt lögin Hótel Reykjavík, Mótmæli, Úr sambandi og Pabbi borgar. Sesselja Konráðsdóttir sá um myndatöku og Ingunn Lára Kristjánsdóttir klippti myndbandið. Helstu áhrifavaldar Antons eru The Kills, Pvris og Finneas O’Connell, best þekktur fyrir að vera pródúsent og bróðir Billie Eilish.
Umræðan