Hljómsveitin Inspector Spacetime kemur til með að gefa út sína fyrstu plötu, Inspector spacetime, þann 8. Janúar næstkomandi. Sveitin, sem er skipuð af þeim Agli Gauta Sigurjónsyni, Vöku Agnarsdóttur og Elíasi Geiri Óskarssyni var stofnuð á vordögum, nánar tiltekið í fyrsta samkomubanninu.
Þegar fjarnám tók við og lítið var um að vera í samfélaginu lá beint við að hanga uppi í stúdíói og fikta sig áfram, að búa til stemningu í samkomubanni. Áður hafði Elías Geir, sem pródúserar öll lög sveitarinnar samið lög fyrir myndbandanefnd MH en annars er Inspector Spacetime frumraun hljómsveitarmeðlima. Inspector Spacetime spilar skandinavískt rafpopp en innblásturinn kemur úr ýmsum áttum. Sem dæmi má nefna breska og franska danstónlist, hina spennandi hyper-pop hreyfingu, diskó og annað skandi-pop.
Sveitin gaf út sitt fyrsta lag hvað sem er síðastliðið sumar og síðar lagið Teppavirki sem hefur náð talsverðum vinsældum og sat um tíma á toppi vinsældalista rásar 2! Síðan þá hefur margt á daga Inspector Spacetime drifið. Samkomubannið setti vissulega strik í áætlanir um tónleikahald á árinu og var stefnan því sett á að leggja lokahönd á fyrstu plötu sveitarinnar. Útgáfutónleikar eru þó á dagskrá um leið og hægt er að mæta á klúbbinn að dansa!
Fylgstu með Inspector Spacetime á Instagram