Iceland Airwaves er einn stofnmeðlima Keychange verkefnisins sem nú hefur tryggt €1.4m til að halda áframa að styðja við bakið á konum og öðru fólki sem hefur mætt hindrunum út af kyni sínu.
Nú er opið fyrir umsóknir fyrir seinni fasa verkefnisins. Iceland Airwaves hét því að ná jöfnum kynjahlutföllum fyrir árið 2020, en náði því strax árið 2018 og nú aftur fyrir hátíðina í ár.
Þátttökuþjóðir eru 12 og tónlistarhátíðir sem taka þátt í verkefninu eru 13 talsins. Fyrir utan það hafa yfir 200 tónlistarhátíðir skrifað undir skuldbindingu við verkefnið um að bjóða upp á jafnt hlutfall kynja á hátíðunum frá og með árinu 2020 en Icelandair Airwaves varð fyrsta hátíð heims til að ná þessum takmarki í fyrra og endurtekur leikinn í ár. Á Íslandi er styrktarðili verkefnisins STEF.
Þátttakendur í verkefninu fá:
Þátttöku í tengslamyndunarfundi í Stokkhólmi í febrúar 2020.
Þátttöku í tengslamyndunarfundi á Reeperbahn tónlistarhátíðinni í september 2020.
Þátttöku í mentoring prógrammi SheSaidSo
Kynningu í gegnum gagnagrunn Keychange sem yfir 200 tónlistarhátíðir geta nýtt sér til að bóka listamenn á tónlistarhátíðir.
Tónlistarmenn sem flytja eigin tónlist munu koma fram á einni af þessum 13 tónlistarhátíðum sem taka þátt á árinu 2020.
Tónlistarmenn sem starfa á annan hátt innan tónlistarbransans (umboðsmennska, verkefnastjórnun, upptökustjórn o.s.frv.) munu taka þátt í einni af þeim 13 tónlistarhátíðum sem taka þátt á árinu 2020 með setu í pallborðsumræðum eða með framsögu.
Tónlistarmenn sem flytja eigin tónlist munu fá 2.260 Evrur (um 308.000 kr.) til að standa straum af kostnaði sínu við verkefnið. Tónlistarmenn sem starfa á annan hátt innan tónlistargeirans munu fá um 1.160 Evrur (um 226.000 kr.) til að standa straum af kostnaði sínu við verkefnið. Gengið er út frá því að þetta dugi fyrir um 75% af kostnaði við að taka þátt í ofangreindum verkefnum.
Fyrir utan styrkinn greiðir Keychange verkefnið fyrir aðgangsmiða á viðkomandi tónlistarhátíðir, mentoring prógrammið og þá dagskrá sem verður fyrir þátttakendur á þessum hátíðum. Þau sem flytja eigin tónlist geta ennfremur sótt um viðbótarstyrki til Ferðasjóðs STEFs, ÚTÓN og FÍH. Umsækjendur þurfa að vera með efni sem er tilbúið til útflutnings og með reynslu í að koma fram opinberlega en nánari upplýsingar um hvaða kröfur eru gerðar til þeirra umsækjenda eru tilgreindar í vefgáttinni.