Hljómsveitin Kaleo hefur heldur betur verið á blússandi siglingu síðan breiðskífan þeirra A/B kom út árið 2016.
Nú á dögunum fögnuðu drengirnir velgengni plötunnar en hún hefur selst afar vel út um allan heim eða í 1.500.000 eintökum. Platan hefur einnig fengið gríðarlega góðar viðtökur á streymisveitum eins og Spotify en um 4.500.000 hlusta á sveitina í hverjum mánuði.
Jökull, Davíð, Daníel og Rubin tóku við silfur, gull og platínu plötum og eins og sjá má á myndinni hér að ofan eru drengirnir afar stoltir.
Kaleo menn hafa verið sveittir við að semja nýja plötu og er hún að sögn Jökuls tilbúin og kemur út næsta vor. Aðdáendur sveitarinnar bíða óþreyjufullir eftir plötunni og eitt er víst að stórt ár er í vændum hjá köppunum.