Á næsta ári fagnar Möller Records 10 ára afmæli en útgáfan hefur áberandi í íslenskri tónlistarútgáfu frá stofnun 2011. Í tilefni af þessum áfanga og 100stu útgáfunni ætlar Möller Records að gefa út sérstaka afmælisútgáfu á tvöföldum 12″ Vinyl í takmörkuðu upplagi.
“Þetta er í fyrsta sinn sem Möller Records gefur út safnplötu á vínýl, hvað þá tvöföldum vínyl” segir Frosti Jónsson hjá Möller Records. “Við leggjum mikinn metnað í þessa safnplötu og vínyllinn verður skreyttur með myndum frá ótrúlega fjölbreyttum viðburðum sem Möller Records hefur staðið fyrir í gegnum tíðina. Þetta er stórt verkefni og til að fjármagna þetta þá höfum við sett upp söfnun á Karólína Fund og hvetjum auðvitað alla sem hafa áhuga á góðri tónlist eða vilja eignast þennann kostagrip að leggja verkefninu lið.”
Möller Records útgáfan var stofnuð árið 2011 af þeim Árna Grétari (Futuregrapher) og Jóhanni Ómarssyni (Skurken). Þeir Stefán Ólafsson (Steve Sampling) og Frosti Jónsson (Bistro Boy) gengu til liðs við útgáfuna skömmu síðar. Markmiðið með stofnun Möller Records var að hjálpa íslensku raftónlistarfólki að koma tónlist sinni á framfæri en frá stofnun hefur forlagið gefið út 99 plötur með yfir 50 listamönnum.
Þeir sem vilja skrá sig fyrir vínyl eða leggja verkefninu lið geta gert það á Karolina Fund.
Umræðan