Hljómsveitin Brek heldur tónleika á hinum fornfræga tónleikastað Café Rosenberg, sem nú hefur verið opnaður enn á ný á Vesturgötu 3, annað kvöld fimmtudaginn 9. júlí.
Brek gaf nýverið út stuttskífu sem inniheldur fjögur ný lög frá sveitnni. En á tónleikunum verður einnig flutt alveg splunkunýtt efni.
Hin akústíska tónlist sveitarinnar sækir áhrif víða að m.a. úr íslenskum þjóðlagaarfi, skandinavískri og bandarískri tónlist, jazzi og fleiru. Áhersla er lögð á vandaða íslenska texta en jafnframt að skapa stemningu sem er grípandi og þægileg en þó krefjandi á köflum. Tónlistarstíl sveitarinnar hefur gjarnan verið líkt við Spilverk Þjóðanna. Sveitin vinnur nú að sinni fyrstu breiðskífu sem er væntanleg í ársbyrjun 2021.
Tónleikarnir á Café Rosenberg hefjast kl.20:30 og er aðgangseyrir 2.000 kr.
Nánari upplýsingar um tónleika og fleira má finna á heimasíðunni brek.is.
Umræðan