Jazzklúbburinn Múlinn heldur áfram með vordagskrá sína miðvikudaginn 15. maí á Björtuloftum í Hörpu. Á tónleikunum kemur fram hljómsveit píanóleikarans Inga Bjarna Skúlasonar, Hugmynd.
Ingi Bjarni fær til liðs við sig þrjá frábæra tónlistarmenn frá Noregi. Kvartettinn spilar eigin tónsmíðar sem sumar hverjar eru innblásnar frá þekktum 90’s slögurum eða tónlistarstefnum. Fiðla er sjaldséð í jazztónlist og gefur hún tónlistinni sérstakan blæ. Ásamt Ing Bjarna koma fram, Jørgen Krøger Mathisen á fiðlu, Håkon Norby Bjørgo sem leikur á bassa og trommuleikarinn Knut Kvifte Nesheim.
Alls verða 17 tónleikar í tónleikaröðinni en tónleikadagskráin sem að vanda bæði metnaðarfull og fjölbreytt er gott dæmi um þá miklu grósku sem einkennir íslenskt jazzlíf þar sem allir straumar og stefnur eiga heima. Múlinn er að hefja sitt sautjánda starfsár en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg og Tónlistarsjóðnum og er í samstarfi við Hörpu og Munnhörpuna.
Umræðan