Nýtt lag hljómsveitarinnar Árstíðir The Wave skellur á land þann 18. ágúst næstkomandi. Laginu má líkja við haföldu sem stigmagnast á leið sinni um Atlantshafið og er ólíkt öllu öðru sem hefur heyrst frá Árstíðum. Hlustandanum er boðið í ferðalag um dali og ris öldunnar, þaðan inn í kröftugt viðlag og heldur síðan áfram að rísa í næstu köflum.
Að vanda sér hinn fjölhæfi Sakaris Emil Joensen frá Færeyjum um upptökustjórn og útsetningu, en hann hefur meðal annars unnið með Kiasmos, Arnóri Dan, GDRN og Gudrid Hansdóttir svo eitthvað sé nefnt. Útkoman er öflugur bræðingur sem tvinnar saman íslensk og færeysk áhrif. Strengjaútsetningin í The Wave er gerð af breska tónskáldinu Rosabella Gregory. Upptökur á strengjum fóru fram í Sundlauginni í Mosfellsbæ og var þeim stjórnað af Ítalsk/Bandaríska upptökustjóranum Marc Urselli sem hefur unnið til Grammy verðlaunanna þrisvar.

Lagið The Wave fjallar um sjálfsstyrkingu, að uppgötva styrkleika sína í miklu mótlæti, að sanna sig fyrir heiminum, að detta en standa alltaf aftur upp, sterkari og ákveðnari en nokkru sinni fyrr.
Lagið The Wave er smáskífa af væntanlegri plötu Árstíða er heitir BLIK, sem verður gefin út 15. september næstkomandi og mun hljómsveitin fara í útgáfutónleikaferðalag um Evrópu í kjölfarið. Við hjá Albumm.is býðum afar spennt eftir nýja laginu en þangað til hlustum við á lagið Let´s Pretend sem kom út fyrir ekki svo löngu.
Umræðan