Síðastliðinn föstudag kom fyrsta smáskífan í fjögur ár frá söngkonunni Rebekku Sif. Lagið Nowhere fjallar um tilfinninguna að vera staddur á krossgötum í lífinu. Fyrsta plata Rebekku Wondering kom út 2017 og er loksins von á nýrri plötu úr hennar smiðju.
„Ég er búin að bíða eftir að gefa út Nowhere frekar lengi núna og var svo spennt að geta loksins deilt því með öllum þar sem það er svo langt síðan ég gaf út frumsamið efni. Ég er mjög stolt af lokaútkomunni og vona að fólk leyfi því að lífga aðeins upp á skammdegið,“ segir Rebekka Sif um útgáfuna.
Rebekka Sif og Aron Andri Magnússon gítarleikari eru höfundar lagsins og hafa verið að vinna að breiðskífu síðan haustið 2020. Nú þegar eru nokkur lög tilbúin og má vænta annarar smáskífu seint í vor. Arnór Sigurðarson sá um upptökustjórn og trommur, Daniel Alexander Cathcart Jones spilaði inn píanó og Gunnar Sigfús Björnsson reif í bassann. Platan hefur fengið styrk frá Stef.
Mikið er um að vera hjá Rebekku Sif þessa dagana en ásamt því að vera að vinna í nýrri tónlist er hún einnig ljóðskáld og fyrsta ljóðabók hennar, Jarðvegur, kom út fyrir jólin. Hér er hægt að sjá textamyndband lagsins en einnig má hlusta á það á öllum helstu streymisveitum, þar á meðal Spotify.
Hægt er að fylgjast með Rebekku Sif á Facebook, Instagram og heimasíðu hennar.