Kælan Mikla gaf nýverið út smáskífuna Sólstöður ásamt tónlistarmyndbandi en þetta er fyrsta lagið sem við heyrum frá hljómsveitinni síðan hún gaf út sína þriðju plötu, Nótt eftir nótt, árið 2018, sem hlaut tilnefningu Íslensku tónlistarverðlaunanna sem besta plata ársins.
„Lagið er óður til dimmustu nætur ársins, þegar nornir kveða upp vetraranda í frosinni víðáttu Íslands á stysta degi ársins,“ útskýrir Sólveig um lagið sem táknar einnig styrk þrenningarinnar, Kælan Mikla í sinni sönnustu mynd, knúin áfram af kröftugri og hrárri náttúrunni.
Kælan Mikla var stofnuð árið 2013 eftir þátttöku og sigur á ljóðaslammi Borgarbókasafnsins. Síðan þá hefur hljómsveitin þróast úr ljóðrænni gjörninga-pönksveit í vandaða og fínpússaða drunga-poppsveit. Kælan Mikla fetaði ótroðnar slóðir og unnu Margrét, Sólveig og Laufey hörðum og sjálfstæðum höndum að því að koma sér á framfæri erlendis og hafa nú unnið sér sess meðal þekktari drungabylgju sveita heims.

Vinna þeirra hefur skilaði miklum árangri og nú hefur hljómsveitin fangað athygli virtra einstaklinga á borð við tónlistarmanninn Robert Smith og leikstjórann Lukas Moodysson. Hljómsveitin hefur í framhaldi af því komið fram á heimsþekktum sviðum á borð við Royal Festival Hall í London, Rose Bowl Arena í Los Angeles og Hyde Park í London, og verið boðið að spila á tónlistarhátíðum á borð við Roskilde Festival, Psycho Las Vegas og Pasadena Daydream festival ásamt The Cure og The Pixies. Lag hljómsveitarinnar var einnig valið sem upphafslag þáttaraðarinnar Gösta, eftir Lukas Moodysson, á HBO.

Hljómsveitin hefur farið á fjölmörg tónleikaferðalög bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, en síðasta ferðalag þeirra, áður en Covid-19 skall á, var sex vikna ferðalag um alla Evrópu að hita upp fyrir frönsku rokkrisana í Alcest.
Lagið var tekið upp í Reykjavík ásamt tónlistarmanninum Barða Jóhannssyni (Bang Gang), og masterað af Frank Arkwright í Abbey Road Studios. Nú er hljómsveitin að vinna að útgáfu fjórðu breiðskífu sinnar, sem var einnig tekin upp og pródúseruð af Barða. Kælan Mikla hefur áður gefið út þrjár breiðskífur; Mánadans, Kælan Mikla og Nótt eftir nótt.
Myndbandið við lagið var tekið upp og leikstýrt af listakonunni Pola Maria.
Umræðan