Forseti Íslands viðstaddur í fyrsta sinn sem fjórar Íslenskar sveitir spila á metalhátíðinni Wacken. Skálmöld, Sólstafir, The Vintage Caravan og Krownest koma fram í ár, en aldrei hafa fleiri íslenskar sveitir spilað á þessari stærstu þungarokkshátíð heims. Guðni Th. Jóhannesson, Forseti Íslands, er viðstaddur þessi tímamót.
Hátíðin Wacken Open Air fer fram þessa dagana í smábænum Wacken í norðurhluta Þýskalands. Fjórar íslenskar sveitir koma fram í ár, en aldrei hafa svo mörg bönd héðan spilað á þessari stærstu þungarokkshátíð í heimi. Það eru hljómsveitirnar Skálmöld, Sólstafir, The Vintage Caravan og nýgræðingarnir í Krownest sem troða uppi í ár.
Hinar fyrri þrjár sveitir þarf vart að kynna til leiks í þungarokksheiminum, en þær hafa allar komið minnst þrisvar sinnum fram á Wacken auk þess að fara reglulega á stór tónleikaferðalög um heiminn. Metal senan er ein virkasta senan í útflutningi á tónlist, og bara þessi þrjú bönd spiluðu alls 89 tónleika yfir árið 2022. Krownest aftur á móti eru ný á sjónarsviðið eftir sigur í undankeppni Wacken Metal Battle sem haldin var hérlendis í vor, en sambærilegar undankeppnir eru haldnar í 30 löndum ár hvert. Aðalkeppnin fer svo fram á fyrstu tveim dögum hátíðarinnar, og fór Krownest á kostum í gærkvöld þegar þau spiluðu fyrir rúmlega 2.000 manns.
„Já, Krownest stóð sig gríðarlega vel og átti sitt besta gigg á ferlinum í gær. Það getur verið ógnvekjandi að fara frá því að spila á Gauknum og svo á risa svið á Wacken en drengirnir tækluðu það með miklum bravúr” – er haft eftir Þorsteini Kolbeinssyni, aðalskipuleggjanda Wacken Metal Battle undankeppninnar á Íslandi og fulltrúa Íslands í hinni fjölskipuðu 40+ manna dómnefnd í lokakeppninni.

Metal tónlist er vissulega ekki allra, en árangur íslenskra metalsveita á alþjóðlegum vettvangi er óumdeilanlegur. Því er við hæfi að fyrsti þjóðhöfðingi sem mæti á þessa heimsþekktu metal hátíð sé Forseti Íslands, Guðni Th Jóhannesson, sem er viðstaddur hátíðina í Þýskalandi.
„Það er magnað að þetta árið sé ekki bara svona margir fulltrúar íslensku rokk og þungarokk senunnar heldur einnig þjóðhöfðinginn sjálfur. Okkur finnst frekar súrrealískt að vera þarna í fjórða skiptið enda er ekki langt síðan að það var fjarstæðukenndur draumur að spila á hinni heilögu Wacken hátíð. Vonumst svo til að skála við Guðna yfir ljúfum tónum Iron Maiden á föstudagskvöldið” – Alexander Örn Númason, The Vintage Caravan.
„Fyrir okkur málmhausana er þetta Mekka og við í Skálmöld erum ótrúlega stoltir af því að vera fulltrúar Íslands á þessu stærsta svið þungarokksins. Ótrúlegt en satt þá eru fjögur íslensk bönd að spila á hátíðinni þetta árið og hlýtur það að vera heimsmet, sé miðað við höfðatölu. Enn ein sönnun þess að gróskan í íslensku þungarokki er ofboðslega. – Björgvin Sigurðsson, Skálmöld.
Guðni er þar með ekki bara fyrsti forsetinn sem heimsækir Wacken heldur þótt víðar væri leitað. Þorsteinn minnist þess ekki að hafa séð neinar fréttir um slíkar heimsóknir á aðrar þungarokkshátíðir. Wacken hátíðin hefur sett saman sérstaka forseta-dagskrá af þessu merka tilefni, þar sem Guðni fær að skyggnast á bak við tjöldin á hátíðinni og sjá hvernig 85.000 manna festival er rekið. Einnig mun hann taka þátt í umræðum í blaðamannatjaldi og á pallborðum hátíðarinnar, þar sem hann mun ásamt Þorsteini og Thomas Jensen, eiganda og einum aðalskipuleggjanda hátíðarinnar tala um víkinga, þungarokk og Ísland. Mikilvægast af öllu er þó að forsetinn mun ekki missa af Iron Maiden, sem er aðalnúmerið á Wacken í ár.
Umræðan