CLOSE er fyrsta smáskífan af komandi plötu tónlistarkonunnar Sjönu Rut sem er væntanleg á þessu ári. Lagið var upphaflega skáldsaga, en Sjana sá atburðarásina fyrir sér á meðan hún samdi lagið en seinna meir varð lagið persónulegra og tengdi hún meira við það.
„Myndbandið endurspeglar tilfinningalegt ferðalag í gegnum fallega liti og ævintýralegt umhverfi, ég er ein í myrkrinu að biðja um hjálp” segir Sjana.
Snorri Þór sá um myndatöku og teiknimyndin er eftir Arsacre en Sjana sá alfarið um stýringu, klippingu og vinnslu myndbandsins.
Nýja platan er væntanleg á árinu en hún er um allt frá erfiðustu tímum lífs hennar Sjönu yfir í töffaraskap og styrkleika.
„Ég tjái mig meðal annars mikið um kynferðisofbeldið á plötunni og allt það ferli sem brotaþolar ganga í gegnum og að læra að standa með sjálfri mér – og elska sjálfa mig.”
Sjana er ófeimin við að prófa nýja hluti í tónlistinni og er alltaf að þroskast og uppgötva sjálfa sig.