Í sumar hafa níu Listhópar ásamt Götuleikhúsi Hins Hússins starfað við að útfæra fjölbreytt og metnaðarfull verkefni á listasviði.
Dansinn hefur dunað, tónlist ómað, litríkur leikur og ljóð lesin hér og þar í borginni undanfarna vikur áhorfendum til gleði og skemmtunar. Næstkomandi föstudag 30.júní á milli kl.12:00 -14:00 munu allir hóparnir leika listir sínar á sameiginlegu Föstudagsfiðrildi í miðborginni og Vængjasláttur lokahátíð hópanna fer síðan fram fimmtudaginn 13.júlí á milli kl.16:00 -18:00. Kynnið ykkur endilega betur starf og verkefni unga listafólksins. Ef þið viljið hafa samband við einhvern hópinn, hikið þá ekki við að hafa samband við okkur til að fá tengiliðaupplýsingar. Hér er dagskrá n.k. Föstudagsfiðrildis og er þá upplagt að gera sér ferð í miðborgina á sólríkum sumardegi í rigningu.
SETTU DANS Í VASANN OG SMURSTÖÐIN – AUSTURVÖLLUR
Settu dans í vasann og Smurstöðin flytja sameiginlegan tónlistar- og dansgjörning þar sem gleði skín í gegn. Hvað gerist þegar maður smyr dansinn í vasanum? Áhorfendur eru hvattir til að dansa með. Smurstöðin: Stefán Nordal og Arvid Ísleifur. Settu dans í vasann: Assa Davíðsdóttir, Bergþóra Sól Elliðadóttir, Diljá Þorbjargardóttir, Freyja Vignisdóttir og Kristína Rannveig Jóhannsdóttir.
SULLAÐ SANNLEIKANUM – AUSTURVÖLLUR
Olga Maggý sýnir myndir og býður áhorfendum að setjast niður hjá sér, horfa á hluta af myndaseríu í vinnslu og kíkja í gott spjall.
HLJÓÐBANKINN – AUSTURVÖLLUR
Katrín Lóa býður ykkur upp á hlustunarpartý! Hægt verður að hlusta á lag í vinnslu, fá sér góðgæti, næla sér í límmiða og senda inn hljóð.
TANGÓ TRÍÓ – HAFNARHÚSIÐ
Tónlistarhópurinn stendur fyrir tónleikaröðinni Hádegistangó í Hafnarhúsi í sumar í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur. Með tónleikaröðinni er ætlunin að kynna tangótónlist fyrir sem flestum. Hópurinn samanstendur af þremur ungum fiðluleikurum, þeim Helgu Diljá, Margréti Láru og Tómasi Vigur, sem einnig leikur á píanó.
SIRKUS KARNIVAL – KOLAPORTIÐ
Sirkus Karnival sýnir sýninguna GLAMÚR, klukkan 12:00 og 13:00. Sýningin er í anda áratugarins 1920 og fagnar fjölbreytileika og kvenlegu eðli. Hópurinn sannar að konur geta allt og er með það markmið að brjóta staðalímyndir innan listheimsins.
INNRI HEIMUR – REGNBOGINN Á SKÓLAVÖRÐUSTÍG
Verið hjartanlega velkomin í sköpunargleðina. Listakonan Diljá Mikaels býður upp á opna vinnustofu í anda þess að tjá sinn innri heim á listrænan hátt. Þér er boðið að mála allt sem er lifandi innra með þér og að öllum líkindum getur þitt sköpunarverk verið partur af listasýningunni “Innri heimur” sem lifnar við þann 11. júlí í Hinu Húsinu.
NÓTA BENE – BÓNUS LAUGAVEGI
Jökull Jónsson og Erla Hlín Guðmundsdóttir kynna: Nóta bene gólar tóna, og góðir hljómar óma, þjóð til sóma, gestir góna, og fella dóma.
GÖTULEIKHÚS HINS HÚSSINS – HALLGRÍMSKIRKJA, SÓLFARIÐ, SKÓLAVÖRÐUSTÍGUR
Láttu leiðsögumenn Götuleikhússins leiða þig í gegnum helstu kennileiti borgarinnar.
UNGT FÓLK Í MYNDBANDSGERÐ – Á FLAKKI
Markús Loki mun flakka milli listhópa Hins með myndavél til að fanga orku miðborgarinnar í nýju og skemmtilegu ljósi.
Hægt er að kynna sér verkefni allra hópanna HÉR
Umræðan