Nú á dögunum gaf splunkunýja hljómsveitin FLOTT út sitt fyrsta lag, „Segðu það bara.“ Lagið hefur þegar vakið nokkra athygli á samfélagsmiðlum en ófáir hafa deilt því í story á Instagram, meðal annars Daði Freyr, sem kallaði lagið „Banger!“ á Twitter.
Textinn í laginu er í formi skilaboða sem send hafa verið milli stelpu og stráka í gegnum samfélagsmiðla. Strákarnir hafa að öllum líkindum ekki mikinn áhuga en geta bara ekki sagt það hreint út og beita því ólíkum aðferðum til að komast hjá því. Ef marka má umræður á samfélagsmiðlum virðast margir tengja við textann.
Meðlimir hljómsveitarinnar eru 5. Vigdís Hafliðadóttir syngur, er meðhöfundur laganna og semur textana, Ragnhildur Veigarsdóttir semur lögin, spilar á hljómborð og útsetur, Eyrún Engilbertsdóttir spilar á gítar og hljóðgervla, Sólrún Mjöll Kjartansdóttir spilar á trommur og Sylvía Spilliaert spilar á bassa.