Ragna Kjartansdóttir, betur þekkt af mörgum sem Cell7, hefur verið viðloðandi íslensku hip hop senuna í fjölda ára. Hún er einn af brautryðjendum tónlistarstefnunnarinnar á Íslandi og er enn í dag virk og með mikla sérstöðu í faginu.
Árið 2013 kom hún svo fram sem sóló tónlistarkona og sendi frá sér plötuna Cellf sem fékk meðal annars Kraumsverðlaunin það árið. Seinni plata Cell7 “Is Anybody Listening?” var m.a. tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna (Nordic Music Prize 2019) og vann Íslensku tónlistarverðlaunin sem hip hop og rapp plata ársins. Að auki fékk hún tvær aðrar tilnefningar: hip hop lag árs (Peachy) og plötuumslag ársins.

“Fix it” er annað lag af þriðju breiðskífu Cell7 sem von er á í haust en síðast gaf hún út ” It’s Complicated” árið 2021. Lagið er fyrsta samstarf Cell7 og Kristins Gunnars Blöndal, líklegast betur þekktur sem DJ KGB, enda komið fram undir því nafni á flestum skemmtistöðum landsins. Kristinn Gunnar hefur einnig komið nálægt fjölda annarra hljómsveita á borð við Ensími, Mr. Silla og Botnleðju svo fátt eitt sé nefnt.
Ragna er einnig annar helmingur dúettsins RED RIOT ásamt Hildi Kristínu Stefánsdóttur en saman vinna þær að plötu sem er væntanleg á vetrarmánuðum 2023.
Umræðan