Stella Ellerts eða Stella Guðrún Ellertsdóttir einsog hún heitir fullu nafni sendi frá sér stuttskífuna Lokbrá þann 12. desember síðastliðinn og er hún nú aðgengilega á Spotify og fleiri streymisveitum.
Platan inniheldur fjögur lög, þrjú frumsamin og eina ábreiðu af laginu Strákarnir eftir Emmsjé Gauta. Lögin þykja pönk/rokk/popp skotin og kanski ekki alveg hægt að setja þau í eitt box. Stella Ellerts býr á bænum Sauðá á Vatnsnesi í Húnaþingi Vestra og er bóndi og hestakona af guðsnáð og hefur í gegnum tíðina notað sinn frítíma í að spila á gítar, píanó og syngja ásamt því að semja lög og texta og kominn tími til að leyfa fleirum að heyra.
Tómas Örn Daníelsson eiginmaður Stellu sér um trommuleik á plötunni. Hann er bóndi, þúsundþjalasmiður og verkstjóri vegagerðarinnar á Hvammstanga. Um bassaleik sér Haraldur Friðrik Arason (Halli Ara). Halli er uppgjafar sjómaður en sérfræðingur í afgreiðslu og lyftaraakstri í pakkhúsi KVH ásamt því að vera bassaleikari í sænsku rokksveitinni Palth. Hefur þetta tríó komið saman og spilað opinberlega við hin ýmsu tækifæri eða einsog hún Stella orðar það gjarnan: Æji þetta eru bara ég og strákarnir að leika okkur eitthvað.
Platan hefur verið í vinnslu með hléum síðan í febrúar síðastliðinn og var hljóðrituð bæði í félagsheimilinu Ásbyrgi á Laugarbakka og á Hótel Laugarbakka undir styrkri stjórn Sigurvalds Ívars Helgasonar sem sá um upptökur og hljóðblöndun. Um masteringu sá Finnur Hákonarson.
Stella Ellerts á Instagram