Sigurður Hólmar er framkvæmdastjóri Ozon ehf sem rekur vörumerkin Hemp Living, Gott CBD og Enzyme en hann er einnig formaður Hampfélagsins á Íslandi. Sigurður byrjaði að flytja inn CBD fæðubótarefni eftir að hann komst að því að CBD gæti haft jákvæð áhrif á sjúkdóm dóttur sinnar. Dóttir hans brást mjög vel við fæðubótarefninu og þá var ekki aftur snúið. Albumm fékk að forvitnast um CBD og áhrif þess.
„Við stofnuðum vörumerkið Hemp Living árið 2017 þegar við byrjuðum að flytja inn og selja Charlottes Web CBD fæðubótarefni, segir Sigurður en svo þremur mánuðum eftir að það fór í sölu var það stöðvað af Matvælastofnun. „Matvælastofnun vildi að við sendum vöruna til Lyfjastofnunar til athugunar. Lyfjastofnun komst að þeirri niðurstöðu að CBD væri lyfjaefni og þannig er staðan ennþá í dag. Við stofnuðum einnig vörumerkið, Gott CBD, sem er gæðastimpill fyrir vörur sem uppfylla allar ýtrustu gæðakröfur sem gerðar eru á framleiðendur CBD vara,“ útskýrir hann en Gott CBD vörumerkið er að finna í mörgum apótekum á Íslandi auk valinna verslanna eins og Hagkaup, Fjarðarkaup, Heimkaup en einnig minni verslanna og snyrtistofa.

Hvað er CBD? „CBD eða Cannabidiol er efni úr kannabisplöntunni. CBD er kannabínóði en yfir 130 mismunandi kannabínóðar eru í kannabisplöntunni,“ útskýrir hann og segir að CBD var fyrst leyft á Íslandi í október 2019 og þá einungis í snyrtivörum. „Verið er að bíða eftir að CBD verði leyft sem fæðubótarefni á Íslandi.“
Sigurður byrjaði að læra um CBD árið 2012 þegar hann var að skoða aðferðir sem gætu haft jákvæð áhrif á sjúkdóm dóttur sinnar Sunnu sem er sú eina á íslandi sem er greind með AHC. „AHC er í raun móðir allra annara taugasjúkdóma og hefur öll einkenni allra annara taugasjúkdóma,“ segir hann.
Árið 2017 fór Sigurður ásamt syni sínum, Viktori Snæ, til Colorado til að skoða framleiðslu Charlottes Web sem er þekktasti CBD framleiðandi í USA.
„Við tökum með okkur nokkrar flöskur heim og byrjaði að nota fyrir sjálfan mig og dóttur mína. Sunna var á þessum tíma í köstum nánast á hverjum degi og fékk grand mal flogaköst að meðaltali einu sinni í mánuði. Flogaköstin hurfu og hafa ekki komið aftur þrátt fyrir að við höfum minnkað flogalyfin hennar um meira en helming á móti CBD olíunni. Hún byrjaði að þroskast hraðar og tala meira. Það kom einhver ró yfir hana og hún gat notið lífsins betur og gerir enn fjóru og hálfu ári seinna.“

Það er talað um kraftaverkaolíu. Við hverju er CBD notað? „Það eru móttakarar fyrir CBD í öllum stærstu líffærum okkar og auk þess vinnur CBD með endókannabínóðakerfinu en það kerfi passar uppá að taugakerfið okkar sé í jafnvægi. Þess vegna breytist svo margt í líkamanum þegar við byrjum að taka inn CBD olíuna,“ útskýrir hann og bætir við að CBD er verulega bólguminnkandi og virkar því vel á alla bólgusjúkdóma eins og t.d. gigt og fleiri sjúkdóma. „Rannsóknir hafa sýnt verulega bætingu á lífsgæðum fyrir einstaklinga með ADHD, einhverfu, kvíða og þunglyndi svo dæmi séu tekin.“
Bjartsýnn á að CBD verði löglegt sem fæðubótarefni á Íslandi
Kannabisplantan hefur verið ólögleg síðan 1969 á Íslandi og engin munur gerður milli iðnaðarhamps eða plöntunnar sem veldur vímu. Spurður hvort það eru einhverjar breytingar á næstunni er varðar að löglega CBD sem fæðubótarefni á Íslandi.
„Það hefur verið skipaður starfshópur sem átti að skila af sér í desember. Þessi starfshópur á að skoða hvernig hægt er að breyta reglugerðum svo að CBD gæti verið leyft sem fæðubótarefni. Ég er bjartsýnn á að við sjáum breytingar á þessu ári.“

Hvað segiru við fólk sem er smeykt að prófa og halda að þetta sé einhver vímugjafi? „CBD olíur eru unnar úr iðnaðarhampinum og reglugerðir í Evrópu segja að THC (vímugjafinn) megi ekki vera meira er 0.2% sem er langt, langt undir þeim mörkum sem fólk þarf til þess að finna vímu. Það er því ekki fræðilegur möguleiki að finna fyrir vímu af því að nota CBD olíu sem uppfyllir þessi skilyrði.“
Sigurður vill benda fólki einnig á sem ætla að prufa CBD, að velja vel og kaupa vöru sem framleidd er af framleiðendum sem uppfylla allar gæðakröfur Evrópusambandsins.
„Heilvirkar (full spectrum) olíur eru einnig betri heldur en einangraðar (isolated) olíur því þá vinnur plantan öll saman sem er alltaf betra. Það er líka gott að hafa lækni með í ráðum ef fólk er að taka sterk verkjalyf eða flogalyf.“
Umræðan