Í síðustu viku gaf Birgir Örn Steinarsson, eða Biggi Maus, út sitt fyrsta sólólag í 15 ár. Lagið heitir “Fyrirgefning” og hefur fengið góðar viðtökur og er m.a. í spilun á Rás 2 og X-inu 977.
Um er að ræða vist afturhvarf til fyrri tíma og hljómar lagið eins og uppgjör. „Já, það passar,” segir Biggi. “Textinn fjallar um það að fyrirgefa öðrum það sem þeir hafa gert á þinn hlut og, kannski mikilvægara, að taka ábyrgð á sínum eigin misgjörðum og biðjast fyrirgefningar”.
Hvernig kom það til að hinir í Maus spiluðu með?
„Ég átti 45 ára afmæli og sá ekki fram á að geta haldið neina veislu. Ég hugsaði með mér að besta afmælisgjöf í heimi væri að fá að mæta aftur í hljóðverið með bræðrum mínum. Ég pantaði hljóðver á afmælisdaginn og bauð þeim að mæta. Þeir mættu svo allir og bættu hver og einn sínu við lagið af sinni einskæru snilld. Ég passaði mig á því að leiðbeina þeim sem minnst. Þetta var bara eins og við hefðum gert þetta í gær”.
Af hverju þetta lag, er þetta kannski um þá?
„Já og nei. Ég valdi lagið vegna þess að Eggert hafði nú þegar samið bassalínuna við það. Hann spilaði það með mér á tónleikum fyrir nokkrum árum síðan. Eins og allt sem hann gerir, var hún svo skotheld að ég gat ekki ímyndað mér að fara semja nýja línu við það. Út af því að hann samdi hana gat ég ekki ímyndað mér að neinn annar en hann myndi spila hana. Því fannst mér eðlilegast að spyrja hann. Þá fékk ég hugmyndina að víst að hann hafði nú þegar samið bassann að þá væri gaman að fá hina til þess að leggja sitt mark á lagið líka. Við höfum verið að hittast mikið í gegnum árin en einhvern veginn aldrei í okkar “eðlilega” umhverfi. Það var hreinlega of spennandi að biðja þá um þetta í stað þess að sleppa því. Mér fannst textinn líka alveg getað vísað í margt sem við höfum gengið í gegnum saman. Ég hef svo sannarlega verið vondur við þá og þeir hafa verið vondir við mig. Bara svona eins og gengur og gerist í vinasamböndum. Ég átti a.m.k. ógleymanlegan afmælisdag, þökk sé þeim.”

En gafstu ekki út sólóplötu undir nafninu Bigital fyrir nokkrum árum síðan?
„Ég gaf út sólóplötu árið 2006 undir nafninu Biggi sem hét “Id”. Svo gaf ég út plötu árið 2015 ásamt Bigital sem hét “10 short stories”. Ég hugsaði þá plötu aldrei sem sólóplötu. Það verkefni var tilraunakennt samstarfsverkefni með fjölda fólks. Ég söng t.d. ekki öll lögin þar heldur vorum við nokkur sem skiptum söngnum á milli okkar. Stærsti hluti þeirrar plötu var t.d. tekin upp með hljómsveitinni Bigital Orchestra sem ég starfaði með í Bretlandi um tíma og þar líka að finna lag þar sem hljómsveitin Króna, sem ég starfaði með árin 2009 – 2010, spilaði. Þar var ég að leyfa mér að starfa með engri reglugerð. Þar mátti allt. Fyrsta lagið á þeirri plötu er t.d. rapplag sem Heimir rappari gerði með mér. Svo er skipt um gír nánast í hverju lagi. Ef ég ætti að reyna útskýra það verkefni myndi ég líkja því við Gorillaz hans Damons Albarns á djöflasýru… nema án allrar vonar um vinsældir. Sólóverkefnið er ég að gera lög eins og mér finnst eðlislægt og þar sem ég syng sjálfur.”

Afhverju ákvaðst þú að nota núna listamannanafnið Biggi Maus?
„Í raun bara til einföldunar. Síðast gaf ég út undir Biggi en síðan þá hafa birst fram á sjónarsviðið nokkrir aðrir Biggar. Fannst ég þurfa að aðgreina mig betur. Bigital átti ekki við í þetta skiptið þar sem nálgunin er allt önnur en kannski geri ég aftur svoleiðis plötu seinna? Ég hugsaði með mér, að sama hvaða nafn ég myndi velja þá myndi því alltaf fylgja; “betur þekktur sem Biggi í Maus”. Nú þarf þess ekki. Þetta er það tónlistar nafn sem ég er þekktastur undir, hvort sem mér eða öðrum líkar betur eða verr. Sjálfum finnst mér það flott – eins og fjarskyldur ættingi John Maus.”
Er meira á leiðinni?
„Já, 100%. Ég ætla þó bara að fara af stað með stökum lögum. Næsta lag ætti að koma út fljótlega eftir áramót.”
Fyrirgefning er unnið með Vigni Snæ Vigfússyni úr Írafár sem hljóðritaði og hljóðblandaði. Það er komið á Spotify:
Umræðan