BÖSS er glæný hljómsveit sem er að senda frá sér sinn fyrsta síngúl í dag sem ber heitið Hættaðglefsa sem tekið er af væntanlegri plötu sveitarinnar, Fagnaðarerindi.
Það eru sko engir nýgræðingar sem innihalda þessa forvitnilegu sveit en það eru: Keli sem hefur meðal annars spilað með Agent Fresco svo afar fátt sé nefnt, Birkir Blær, höfundur sjónvarpsseríunnar Ráðherrans spilar á saxófón, Mikael Máni sem er að gefa út sína þriðju sólóplötu um þessar mundir og Þórður Sigurðarson kirkjuorganisti.
BÖSS er djasshljómsveit sem varð til fyrir slysni þegar það vantaði hljómsveit til að spila tónleika á Skuggabaldri – djasstónleikastað sem var og hét í miðbæ Reykjavíkur. BÖSS var púslað saman og okkur þótti svo gaman að spila saman að við héldum áfram að gera það – segir Keli.

Þetta er óvenjuleg djasshljómsveit, því meðlimirnir koma úr öllum áttum. Prog Þungarokkari og kirkjuorganisti og rithöfundur og djassgítarleikari. Gerist varla betra.
Við ákváðum að semja lög og það gekk fáránlega vel. Við vorum með regluna: það er bannað að taka lagasmíðarnar allt of hátíðlega. Við bara smíðum einhver lög og spilum þau saman. Fyrr en varði vorum við komnir með tíu lög og þá bókuðum við stúdíó og tókum plötuna upp á tveimur dögum.
Nú fer platan fljótlega að koma út en fyrst ætlar sveitin að gefa út nokkur lög út sem síngla.
Við erum djasshljómsveit sem er að prufa að haga sér eins og Beyonce. Til að sjá hvernig okkur gengur að vera Beyonce – segir Keli að lokum.
Umræðan