Elíza Newman var að senda frá sér lagið Fagradalsfjall (you´re so pretty). Elíza samdi lagið eftir að hafa fengið margar fyrirspurnir og áskoranir allstaðar að úr heiminum um að semja annað eldfjallalag fyrir nýja gosið á Reykjanesi. Semsagt sjálfstætt framhald af Eyjafjallajökull og samið á 10 mínútum eins og það.
Elíza hefur farið víða í tónlistarsköpun sinni, og samið allt frá pönki til óperu til eurovision-laga. Hún starfaði erlendis lengi og hefur gefið út fimm plötur með Kolrössu/Bellatrix, eina með hljómsveitinni Skandinavia og fjórar sóló plötur sem allar hafa hlotið lof gagnrýnenda bæði heima og erlendis og hlaut síðasta breiðskífa Elízu, Straumshvörf m.a tvær tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins og lag ársins. Elíza vinnur nú að fimmtu sóló breiðskífu sinni sem kemur út seinna á þessu ári.
Upptöku stjórnaði Gísli Kjaran Kristjánsson og syngur Elíza og spilar á hljómborð, ukulele, rafmagnsgítar og bassa. Gísli trommar, spilar á gítar og klukkuspil.
Einnig er komið út myndband með einstökum myndum af gosinu frá Jóni Hilmarssyni og Rúnari Inga Garðarssyni, klippt saman af Karli Newman.
Umræðan