Hljómsveitin BSÍ gefur út nýjasta singúlinn sinn Vesturbæjar Beach í dag, Sumardaginn fyrsta, en þau fullyrða að aldrei sé of snemmt að gefa út sumarlag og halda almennilegt strandapartí!
Tónlistarmyndbandið við Vesturbæjar Beach var leikstýrt og framleitt af hinu kyngimagnaða tvíeyki Snæfríði Sól Gunnarsdóttur og Arínu Völu Þórðardóttur. Af kostgæfni náðu þær að fanga hið ískalda sumarpartý BSÍ þar sem hlljómsveitin breiðir út sumarboðskapinn á hinum ýmsu stöðum í Vesturbæ Reykjavíkur; á Bifreiðastöð Íslands, á Hringtorginu og við Kjötborg, svo fátt eitt sé nefnt. Lagið og myndbandið eru óður til Vesturbæjar sem er bækistöð og heimili BSÍ stúdíósins, en það heitir einmitt líka Vesturbæjar Beach!

Tónlistarbloggið Under The Radar sér um frumsýninguna á myndbandinu (en lagið sjálft verður síðan aðgengilegt á öllum helstu streymisveitum Sumardaginn fyrsta, 22. apríl. BSÍ mun svo flytja lagið á tónleikum á KEX í kvöld og síðan í beinni á RÚV í Vikunni með Gísla Marteini, föstudaginn 23. apríl.
Eftir að hafa nýverið gefið út ’25Lue’ og ‘Dónakallalagið’ í síðast liðnum mánuði, er ‘Vesturbæjar Beach’ næsti forsmekkur af komandi plötu hljómsveitarinnar Stundum þunglynd … en alltaf andfasísk. Vesturbæjar Beach er fyrsta lagið á krúttpopppönkhlið plötunnar, sem er orkumikla hliðstæða rólegu ástarsorgarhlið plötunnar. Fyrsta breiðskífa BSÍ ‘Stundum þunglynd … en alltaf andfasísk’ kemur út 21. maí, á öllum helstu streymisveitum og sem endurunninn vínyll, í samvinnu með vinum þeirra hjá Tomatenplatten (Berlin), Why Not? Plötum (Reykjavík) og post-dreifingu (Reykjavík).
Umræðan