Tónlistarmaðurinn Sk-Ar, sem er listamanns heiti Skúla Arasonar, hefur gefið út verkið Við sjóinn.
Skúli tók upp sjávarhljóð, varðeld og veðrið víða í Borgarfirði Eystri sem niðar undir margvíslegri tónlist í rólegri og flæðandi heild. Tónlist verksins ferðast frá hliðrænum hljóðgerflum yfir í lifandi hljóðfæri; gítarar, kontrabassi, slagspil, píanó og strengir fá að njóta sín er verkið færist milli stemninga. Hver kafli er tilkynntur með ljúfri vakningu bænaskálarinnar. Verkið hentar vel í íhugun og afslöppun þar sem hljóðin eru öll í heimi sveimsins eða því sem oft er kallað Ambient á útlensku.
Skúli semur, spilar, tekur upp og hljóðblandar allt sem heyrist ásamt því að sjá um alla myndræna framsetningu er tengist Sk-Ar. Myndbandsverk mun fylgja plötunni sem er unnið úr tökum á þeim stöðum þar sem umhverfishljóði eru tekin upp. Sú afslappandi upplifun verður aðgengileg á youtube.

Sk-Ar hefur áður gefið út plötuna Þá verðum við jöfn ásamt ýmsum minni útgáfum og endurgerðum s.s. endurhljóðblöndun á lagi Teits Magnússonar Hvítur Dauði. Nýlega hefur hann verið í rólegu deildinni með hljóðmyndun og leiddum slökunum í seríunni Við slökum.
Næst úr ranni Sk-A er væntanleg sveim platan „Við erum í geimnum“ þar sem hlustandinn er hvattur til að gefa þeirri staðreynd gaum, leggjast og horfa upp í himininn á meðan tónarnir flæða. Við öll hljóðverk Sk-Ar gerir Skúli myndverk sem styðja við upplifun laganna og munu þau einnig verða notuð í lifandi flutningi.
Fylgstu með Sk-Ar á Facebook/Instagram / Youtube / Soundcloud / Bandcamp
Umræðan