Hljómsveitin Tendra sendir frá sér „Stutt Tónleika seríuna” sína í júní, í samstarfi við Albumm.is. Tónleikaserían, sem er í fjórum hlutum, skartar tvíeykinu og tónlistar parinu Mikael Mána Ásmundssyni gítarleikara og söngkonunni Marínu Ósk Þórólfsdóttur, en auk þeirra koma við sögu góðir gestir.
Tónlistin sem flutt er kom út á fyrstu plötu hljómsveitarinnar, en einnig leynast þekktar ábreiður inn á milli. Tónlistin er einskonar söngvaskálda jazz með mildum popp kryddum og að mestu á íslensku.Í þessum fyrsta hluta stutta tónleika seríunnar mætir í hljóðverið trompet- og flygel horn leikarinn, Ari Bragi Kárason. Ásamt Ara leikur Tendra tvö lög; ábreiðu af Lóan er komin og lagið Draumaland, en það síðarnefnda má finna á fyrstu plötu Tendru, sem kom út í nóvember 2020 hjá Smekkleysu. Öll stutt tónleikasería verður birt hér á albumm.is, fjóra fimmtudaga í júní.
Eldheit hugmynd í -10° gráðum
Hugmyndin að stutttónleikaseríunni kviknaði í september 2020 þegar meðlimir Tendru voru að undirbúa útgáfu samnefndrar plötu og óljóst var hvort útgáfutónleikar gætu átt sér stað, útaf svolitlu. Þá kom upp sú hugmynd að taka upp tónleikaseríu sem innihéldi nokkur myndbönd þar sem tvö lög væru leikin hverju sinni, með mismunandi gestum. „Marína kom með þessa hugmynd þegar við vorum í göngutúr í bítandi frosti í sumarbústaðahverfi í Öndverðarnesinu. Ég greip hugmyndina glóðvolga og við fórum strax að velta fyrir okkur hverjum við ættum að bjóða með okkur í verkefnið, hvar við ættum að taka það upp og svo framvegis. Það komu upp margar frábærar hugmyndir í þessum ískalda göngutúr” segir gítarleikarinn Mikael Máni og Marína bætir við: „Okkur langaði mikið til að prófa að spila tónlistina með ólíku fólki. Við fengum til liðs við okkur hið fullkomna gengi og úr varð hin fullkomna viðbót við tónlistina.” en auk trompetleikarans fótalipra Ara Braga Kárasonar kemur einnig fram hin verðlaunaða og rómaða Ingibjörg Elsa Turchi rafbassaleikari, Moses Hightower söngvarinn og hljómborðsleikarinn Steingrímur Teague, trymbillinn og slagverksleikarinn Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir og sellóleikarinn Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir.

Tendra-Stutttónleikasería er styrkt af Tónlistarsjóði og Menningarsjóði FÍH og leitaði tvíeykið á náðir Hilton Reykjavík Nordica fyrir upptökur, en þar starfar einn af betri hljóðmönnum landins, Ívar Ragnarsson, betur þekktur sem Ívar Bongó. „Mikael stakk upp á Nordica og við heyrðum í Ívari og fengum að líta á staðinn. Hann var spenntur fyrir hugmyndinni og við spennt fyrir staðsetningunni, en rýmið hentaði mjög vel!” segir Marína, en Ívar sá um hljóðupptökur, hljóðblöndun og hljómjöfnun og myndatökumaðurinn Helgi Jóhannesson sá um myndupptökur og klippingu.
Sem fyrr segir verður öll stutttónleikaserían birt hér á albumm.is og kemur annar hluti seríunnar út fimmtudaginn 10.júní.
Umræðan