THE ZUCKAKIS MONDEYANO PROJECT SNÚA AFTUR MEÐ NÝJA PLÖTU

0

tzmp 2

Hljómsveitin TZMP (The Zuckakis Mondeyano Project), samansett af Árna Kristjánssyni og Steina Linnet, hefur verið starfrækt í 16 ár í þremur löndum og mun önnur plata sveitarinnar koma út í Japan í byrjun ágúst og á Íslandi skömmu síðar. Strax í kjölfar útgáfunnar í Japan halda kapparnir í tónleikaferðalag þar í landi, en á fyrstu tónleikum sveitarinnar í Tókýó spilar tvíeykið með japönsku hljómsveitinni YMCK, sem hefur gert garðinn frægan fyrir einstakar tónsmíðar í ætt við tölvuleikjatónlist níunda áratugs síðustu aldar.

tzmp

Tólf ár eru síðan frumburður sveitarinnar The Album kom út og var hún gefin út í 150 eintökum í ágúst 2004. Síðan þá hefur sveitin verið iðin við kolann og komið fram fjórum sinnum á Iceland Airwaves, á menningarhátíð tengdri Heimssýningunni 2005 í Japan og víða á listviðburðum sem og klúbbakvöldum.

Til að fjármagna nýju plötuna og tónleikaferðalagið hefur sveitin ráðist í hópfjármögnun á Karolinafund sem hefst föstudaginn 15. ágúst og stendur yfir í mánuð. Meðal áheita er hægt að fá geisladiska, boli, sérsamið lag frá sveitinni en einnig er hægt að gerast meðframleiðandi plötunnar.

tzmp 3

Á nýju plötunni, sem ber titilinn Anthology: Simply The Best, kennir margra grasa. Tónsmíðarnar eiga uppruna sinn allt frá árinu 2004 til nútímans og sækja drengirnir innblástur í hip hop og raftónlist níunda áratugsins. Einnig má finna á plötunni endurhljóðblandanir frá hinum íslenska Ruxpin, japönsku sveitinni YMCK og djassábreiðu frá meðlimum japönsku dauða-djass sveitarinnar Soil & „PIMP“ Sessions, í slagtogi við djasspíanistann Aaron Choulai frá Papúa Nýju-Gíneu.

Plötuna er hægt að panta á heimasíðu Karolinafund en einnig verður hún til sölu í plötubúðum í Reykjavík frá byrjun september. Tónleikarnir í Tókyó verða haldnir á tónleikastaðnum Varit í Roppongi þann 11. Ágúst og fer miðasala fram á miðasöluveitunni e+.

Comments are closed.