YLJA, MYRRA RÓS OG RÓSA GUÐRÚN SPILA Á SJÖTTU TÓNLEIKUM KEX OG KÍTON

0

Sjöttu tónleikarnir í tónleikaröðinni KEX+KÍTÓN í samstarfi við Arion banka verða haldnir í Gym & Tonic í kvöld á KEX Hostel 19. október þar sem fram koma Hljómsveitin Ylja ásamt tónlistarkonunum Myrru Rós og Rósu Guðrúnu.

ylja

Ylja

Ylja er fimm manna indie/folk hljómsveit upprunalega stofnuð sem dúet söngvaranna Gígju Skjaldardóttur og Bjarteyjar Sveinsdóttur. Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu árið 2012 og vakti strax umtalsverða athygli fyrir draumkenndar laglínur, hljómfagrar raddir og fallegan gítarsamhljóm. Þeir Magnús Örn Magnússon og Örn Eldjárn bættust við snemma á árinu 2014 og um haustið gekk Ingibjörg Elsa Turchi til liðs við sveitina.  Í þessari mynd gaf Ylja út sína aðra plötu sama ár, Commotion, sem er ívið rafrænni og býr við mun stærri hljóðheim en sú fyrri. Bjartey og Gígja halda þó alltaf tryggð við samhljóm radda sinna og leitast alltaf við að koma aðdáendum Ylju á óvart.  Ylja hefur þrívegis verið tilnefnd til ÍSTÓN (íslensku tónlistarverðlaunanna) fyrir söng sinn og flutning.

Rósa Guðrún 

Rósa Guðrún er söngkona og saxófónleikari sem hefur komið fram með ýmsum tónlistarmönnum í síðustu árin. Hún gaf út sína fyrstu sólóplötu 2014 og er að vinna að nýrri plötu. Tónlistin er margþætt, allt frá R&B og reggae yfir í dramapopp og verður hún frumflutt á tónleikum KÍTON á KEX. Með henni á sviðinu verður rjóminn af ungu tónlistarfólki og saman skipa þau 7 manna band.  Ásamt því að semja og flytja sína eigin tónlist hefur Rósa spilað með hljómsveitum og tónlistarmönnum á borð við Jónas Sig & Ritvélar Framtíðarinnar og Mugison.

myrrapromo-copy

Myrra Rós

Myrra Rós er tónlistarkona sem á rætur að rekja til Hafnarfjarðar. Hún hefur gefið út tvær plötur undir sínu nafni á vegum þýska útgáfu fyrirtækisins Beste Unterhaltung en þær nefnast Kveldúlfur (2012) og One amongst others (2015) en sú plata komst til að mynda á lista yfir bestu plötur ársins 2015 hjá Kraumi Tónlistarsjóð.

Myrra ásamt hljómsveit mun flytja lög af plötunni One Amongst Others þetta kvöld en tónlist hennar má lýsa sem draumkenndu, lágstemmdu þjóðlagapoppi, sér sniðið að dimmum haustkvöldum.
Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 20:00 og kostar 1500 krónur inn (selt inn við hurð).

KEX Hostel hefur frá opnun 2011 lagt mikla áherslu á lifandi tónlist og hefur fjöldi íslenskra og erlendra tónlistamanna komið fram á KEX. Samstarfið með KÍTÓN – konur í tónlist undirstrikar og styrkir enn frekar tengsl KEX Hostel við fjölda listamanna og það er svo sannarlega mikið gleðiefni að tengjast KÍTÓN og munu KEX, KÍTÓN og Arion banki bjóða uppá mánaðarlega tónleika undir yfirskriftinni KEX+KÍTÓN.

KÍTÓN stendur fyrir konur í tónlist og er tilgangur félagsins er að skapa jákvæða umræðu, samstöðu og samstarfsvettvang meðal kvenna í tónlist. Þeim tilgangi er náð með auknum sýnileika, viðburðum og stöðugu samtali við tónlistarkonur á Íslandi. Samstarf KÍTÓN við KEX Hostel og Arion banka rennur enn fremur stoðum undir það góða starf sem KÍTÓN er að vinna.

Með tilstuðlan KÍTÓN er umræðan um stöðu kvenkyns laga- og textahöfunda jafnt sem flytjenda orðin fyrirferðameiri en hún hefur verið undanfarna áratugi. Félagið fer þvert á allar tónlistarstefnur, strauma, bakgrunn, menntun og jafnvel má sjá konur í félaginu sem starfa við tónlist sem umboðsmenn eða hafa atbeini eða starfa af tónlistargeiranum. Félagið fer ört stækkandi og eru nú um 246 félagskonur skráða.

Comments are closed.