X-MAS CROON & SWOON, DANÍEL HJÁLMTÝSSON OG BENJAMÍN NÁTTMÖRÐUR ÁRNASON SYNGJA INN JÓLIN

0

JÓLA DOPP

Söngvarinn Daníel Hjálmtýsson og gítarleikarinn Benjamín Náttmörður Árnason hafa unnið og starfað við tónlist og tónleikahald í gegnum árin hvor í sínu horninu við góðan orðstír.
Vinnur Daníel nú að sinni fyrstu sólóplötu og Benjamín er tíður gestur á sviðum borgarinnar þar sem jazz, fönk, hip-hop eða aðrar tónlistarstefnur vilja upp á dekk. Daníel og Benjamín starfa einnig sem tónleikahaldarar og hefur sá fyrrnefndi, sem starfar einnig sem grunnskólakennari í Reykjavík, m.a. staðið að tónleikum Mark Lanegan og Sun Kil Moon hér á landi á meðan sá síðarnefndi hefur staðið að ógrynni viðburða í Reykjavík og annarsstaðar á Íslandi sem og erlendis. Þetta árið ákváðu þeir Daníel og Benjamín að sameina krafta sína, hittast yfir kaffibolla og huga að klassískum jólalögum af gamla skólanum. Sameinast þar myrk en hugljúf baritón rödd Daníels við hlýjan, mjúkan og flæðandi jazz/blues gítarleik Benjamíns. Eftir fyrsta fund var auðheyrt að blandan svínvirkaði og hafa þeir félagar nú ákveðið að bjóða upp á fjölda tónleika í desember nk. og eru þessa dagana að hrista saman dagskrá sem samanstendur af lögum sem flutt voru af listamönnum á borð við Dean Martin, Nat King Cole, Frank Sinatra, Perry Como og Bing Crosby svo fátt sé nefnt.

JÓLA 4
Daníel og Benjamín koma m.a. fram á góðgerðarmarkaði Mótorsmiðjunnar, laugardaginn 5.desember, Dillon Whiskey Bar sama kvöld, Gauknum þann 17.desember og hjá hárskeranum Nonna Quest í Quest – Hair, Beer & Whisky Saloon við Laugaveg, en enn á eftir að tilkynna fleiri tónleika þeirra félaga. Hafa þeir þá stofnað viðburð á Facebook þar sem hægt verður að fylgjast með ferðum þeirra í desember, æfingum og allskyns fjöri fram að jólum.
Miðasala á tónleika Daníels og Benjamíns, sem þeir kalla „Christmas Croon & Swoon,“ í Quest er hafin á sama stað og kostar miðinn einungis 1000 krónur í forsölu. Um verulega takmarkaðan fjölda miða er að ræða. Miðasala á „Christmas Croon & Swoon“ á Dillon Whiskey Bar þann 5.desember nk. hefst á næstunni en ekkert miðagjald er á tónleika þeirra á Gauknum þann 17.desember. Fylgist vel með gangi mála á Facebook, pússið skóna, bindið slaufuna og takið jólunum opnum örmum – af gamla skólanum.

Hér má sjá viðburðinn og fylgjast með hvar kapparnir verða næst

Comments are closed.