VOYAGER BREYTTI SÝN OKKAR Á ALHEIMINN

0

Úlfur Eldjárn hefur sent frá sér nýtt lag af væntanlegri plötu sinni The Aristókrasía Project. Lagið heitir „Bon Voyage“ og er hægt að sækja það sem ókeypis niðurhal með því að fara inn á heimasíðu hans www.ulfureldjarn.com

Lagið Bon Voyage er tileinkað Voyager-leiðangrinum, en í ár verða liðin 40 ár frá því að Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, sendi ómönnuðu geimförin Voyager 1 og 2 af stað í lengsta geimkönnunarleiðangur sögunnar. Voyager geimförin tvö hafa ferðast lengra en nokkur maður eða manngerður hlutur og hafa gjörbylt sýn okkar á alheiminn.

Úlfur hefur starfað sem orgelleikari í Orgelkvartettinum Apparat og einnig verið mjög ötull við að semja tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarp, leikhús og eigin verk. Í laginu blandar hann saman mörgum af helstu ástríðum sinni í tónlist, en það má heyra í því áhrif frá fyrstu árum tölvupoppsins, mikilfenglegar strengjaútsetningar og afar hressandi takta úr smiðju slagverksleikarans Samuli Kosminen (Múm, Jónsi, Hauschka).

Strengjaleik á plötunni önnuðust þau Una Sveinbjarnardóttir, Gunnhildur Daðadóttir, Guðrún Hrund Harðardóttir og Hrafnkell Orri Egilsson. Magnús Árni Öder sá um hljóðblöndun.

Hægt er að niðurhala laginu frítt á heimasíðunni: www.ulfureldjarn.com

„The Aristókrasía Project“ kemur út 12. apríl.

Hér fyrir neðan má sjá stórglæsilega tónleika með kappanum!

Skrifaðu ummæli