VONBRIGÐI

0
Hljómsveitin Vonbrigði var stofnuð í nóvember 1980, hana skipa Gunnar E.Knudsen bassi, Jóhann Vilhjálmsson söngur, Árni Kristjánsson gítar, Þórarinn Kristjánsson trommur, Gísli M.Sigurjónsson gítar.
Hljómsveitin Vonbrigði var stofnuð í nóvember 1980, hana skipa Gunnar E.Knudsen bassi, Jóhann Vilhjálmsson söngur, Árni Kristjánsson gítar, Þórarinn Kristjánsson trommur, Gísli M.Sigurjónsson gítar.

Það er eitthvað við þessa útgáfu Vonbrigða sem er töfrandi. Þetta rífur mann á hárinu aftur til ársins 1982 þar sem allt er grátt, maður er alltaf blautur í lappirnar þar sem maður getur ekki gengið á öðru en slabbi, sígarettan sem maður tekur úr pakkanum er blaut og brotin og myndin sem maður teiknaði á leðurjakann sinn er illa misheppnuð og það eru stafsetningavillur í textabrotinu sem maður krotaði á ermina. En manni er skít drullu sama af því maður er að drífa sig heim til að setja þetta undir nálina í skítugu herberginu sínu þar sem það helltist kertavax á teppið kvöldið áður og mamma er ennþá brjáááááluð út af því.

Lögin á þessari plötu eru killer, þó að lagið eitthvað annað er algerlega eitthvað annað fönkað misheppnað popplag. Manni er skítsama um það af því að hin lögin eru algerlega tjúlluð! Soundið er skítkallt, rafmagnað og útúr angstað á því. Magnað að hugsa til þess að meðlimir sveitarinnar voru rétt skriðnir yfir fermingu þegar þetta var tekið upp. Ég fékk þessi fjögur lög upptekin á kassettu þegar ég var krakki og þetta er ennþá rúmlega tuttugu árum seinna að „sparka í rassgatið á mér. Það er einhver galdur ömurleikans að verkum á þessari plötu sem gerir þetta stórkostlegt. Ef það mætti líkja þessu við eitthvað sem er að gerast í íslensku rokki í dag þá er ágætt að ímynda sér að maður setji hljómsveitirnar Börn og Kæluna miklu í sömu pípuna og fíri svo í.

Þessi plata er til í takmörkuðu upplagi en dúkkar upp hér og þar og ef þú hefur eitthvað vit í hausnum þá skaltu kaupa eintak ef þú rekst á það, þó það kosti sexþúsund krónur eins og mitt! Þú lesandi góður verður og átt það skilið að eiga greiðan aðgang að lögum eins og Skítseyði, Börnin þín og SjálfsmorðVonbrigði er nefninlega ekki bara Ó Reykjavík!

Höfundur: Andri Freyr Viðarsson

 

 

Comments are closed.