„VISSUM ALLTAF AÐ ÞETTA VÆRI TÍMABIL SEM MYNDI LJÚKA“

0

Birgir Örn Steinarsson, Daníel Þorsteinsson, Eggert Gíslason og Páll Ragnar Pálsson mynda hljómsveitina Maus.

Hljómsveitin Maus er heldur betur í stuði þessa dagana en sveitin fagnar nú 20 ára afmæli plötunnar Lof Mér Að Falla Að Þínu Eyra. Í tilefni afmælisins sendir sveitin frá sér plötuna á vínyl og er útkoman afar glæsileg! Birgir Örn Steinarsson eða Biggi í Maus eins og hann er oftast kallaður svaraði nokkrum skemmtilegum spurningum um plötuna, ferilinn og stemninguna í bandinu svo sumt sé nefnt.


Maus er heldur betur í stuði þessa dagana, hvað kom til að þið ákváðuð að henda í vínyl plötu og herja á tónleikahald?

Á þessu ári er Lof mér að falla að þínu eyra 20 ára gömul og þá vildum við endilega gefa henni útgáfu á vínyl. Engar af plötunum okkar hefur nokkurn tímann séð vínylútgáfu því þegar við gáfum þær upphaflega út var okkur sagt að vínyll væri úrelt format. Núna er vínylplötusala að rjúka upp úr öllu valdi um allan heim og greinilegt að streymið er að drepa geisladiskinn. Fólk sem vill áþreifanlegar útgáfur af tónlist er því búið að endurfatta hversu gott format vínyllinn er. Við vorum beðnir um að gera þetta í fyrra en við vildum fresta því um ár, þar sem okkur fannst við hæfi að gera smá viðburð úr 20 ára afmælinu. Eftir að það var orðið ljóst að þetta væri að koma út á vínyl, fannst okkur fáránlegt að spila ekki. Þannig að þetta er búið að vera mjög organískt og eðlilegt ferli.

20 ára afmælisútgáfan er sérlega glæsileg vínylplata, blágræn og gegnsæ. Textar plötunnar fylgja með ásamt helstu upplýsingum um útgáfuna. Allt er þetta skreytt með myndunum úr upprunalega umslaginu.

Þegar þið lítið til baka og horfið yfir farinn veg hvað stendur upp úr á ferlinum og hvernig var að vera í einni vinsælustu hljómsveit Íslands?

Vá, stór spurning. Mér finnst bara magnað að það nenni einhver að hlusta ennþá á þetta stöff. Við erum ennþá spilaðir í útvarpi, fólk er enn að streyma tónlistinni á netinu og alltaf þegar við spilum er fullt hús. Það eru forréttindi að hafa ekki gleymst – því ég man persónulega eftir mörgum öðrum íslenskum böndum sem mér finnst drullugóð en enginn man eftir.

Bjuggust þið við slíkum vinsældum og að vera ennþá að grúska í Maus 20 árum seinna?

Ég get kannski ekki svarað fyrir hina – en ég verð að svara þessu játandi. Manni var orðið ljóst á svona fimmtu og sjöttu plötuútgáfu að þetta ævintýri væri stærra en nokkur okkar sem var í bandinu. Við höfðum selt þúsundir eintaka og þetta yfirtók okkar líf allra í svo langan tíma. Maður fylltist fljótlega þakklæti fyrir þetta og við lögðum okkur alltaf fram við það að vera vandvirkir (eftir bestu getu) og að bjóða aldrei upp á eitthvað hálfkák. Af sama skapi var viss tregða í okkur að fara eitthvað lengra með bandið – þar sem áhugasvið liðsmanna náði langt út fyrir bandið. Við vissum alltaf að þetta væri tímabil – og að því myndi ljúka – en vorum staðráðnir í því að gera það eins eftirminnilegt fyrir okkur og aðra og hugsast gat.

Hvernig er stemningin í bandinu í dag og er von á nýju efni frá ykkur, jafnvel plötu?

Stemmningin í bandinu er góð. Þessa daganna erum við að venjast því að fara vikulega á hljómsveitaræfingar. Við erum og höfum alltaf verið mjög markmiðs-miðaðir. Núna erum við eingöngu að einbeita okkur að því að bjóða upp á hörku tónleika í nóvember. Við erum að spila fjórum sinnum – og erum að reyna finna leiðir til þess að gera hverja og eina upplifun sérstaka. Við munum alltaf spila slatta af lögum af Lof mér að falla í þessari hrynu – þar sem þetta er nú vegna afmælis hennar en ég efast um að við séum að fara endurtaka sama prógrammið fjórum sinnum. Nýtt efni – eða hvað þá plata – hefur ekki einu sinni komið upp í spjalli hjá okkur. Enda eru Palli, ég og Danni að gera tónlist á öðrum sviðum. Ég er ekkert að loka á neitt í framtíðinni – en við erum að minnsta kosti ekkert að pæla í því núna.

Við hverju má fólk búast á tónleikum ykkar og eitthvað að lokum?

Það má búast við því að heyra Maus lög, leikin af okkur sem höfum unnið heimavinnuna okkar vandlega. Þá má búast við að heyra flest lögin af „Lof mér að falla að þínu eyra,“ það má búast við því að heyra Lenu Viderö syngja aftur með okkur og það má jafnvel búast við því að heyra einhver gömul lög í nýjum útsetningum. Svo ef við erum í stuði, má það búast við því að við leitum í slagarabankann og spilum þangað til að við getum ekki meir.

Að lokum vil ég bara benda á að platan er komin í sölu í öllum helstu plötuverslunum landsins. Ef platan okkar er ekki til, þá vitið þið að hún er annað hvort uppseld eða að sú verslun er ekki ein af helstu plötubúðum landsins. Hér eru svo þeir tónleikar sem enn er hægt að tryggja sér miða á í gegnum tix.is.

  1. nóv. Iceland Airwaves / Reykjavík.
  2. nóv. Græni hatturinn / Akureyri.
  3. nóv. Hard Rock / Reykjavík.

Skrifaðu ummæli