„Vissi strax að þarna væri komið lag sem ég þyrfti að taka lengra.“

0

Ljósmynd/Ivar Eythorsson

Tónlistarkonan Eva Björk Eyþórsdóttir var að senda frá sér nýtt lag sem nefnist „This Is It.“ Þetta er fyrsta lagið sem Eva gefur út og að því tilefni var ákveðið að skella í eitt tónlistarmyndband.

Eva hefur sungið síðan hún man eftir sér en síðast liðin ár hefur hún sungið mikið sem bakrödd með flottasta tónlistarfólki landsins. Svo fyrir tveimur árum ákvað hún að nú væri sinn tími kominn að sýna hvað í sér byggi.

„Ég hafði átt píanó í fleiri fleiri ár sem ég spilaði varla á en ákvað að demba mér út í djúpu laugina og byrja að spila aftur. Í kjölfarið samdi ég lag og vissi strax að þarna væri komið lag sem ég þyrfti að taka lengra.“

Lagið var tekið upp í Studio Bambus hjá þeim Stefáni Erni Gunnlaugssyni og myndbandið var unnið í samstarfi við Unni Elísubet Gunnarsdóttur og Eirík Þór Hafdal.

„Þetta er búið að vera afar ánægjulegt ferli en á sama tíma mjög lærdómsríkt. Maður þarf bara að trúa og treysta á sjálfan sig og fylgja hjartanu. En nú er bara komið að þessu. This is it!“

Hér er á ferðinni kraftmikið popp/soul ballaða með tilfinningaþrungnum texta sem lýsir fantasíu eða þrá sem ekki er hægt að uppfylla.

Skrifaðu ummæli