VINIR, VINNUFÉLAGAR OG FJÖLSKYLDA Á MÖGNUÐUM TÓNLEIKUM HEIMA Í STOFU

0

sigg jess

Tónlistarmaðurinn Sigurjón Sveinsson hélt svokallaða stofutónleika nú á dögunum en að hans sögn fann hann þörf fyrir að koma tónlistinni frá sér. Verkið sem Sigurjón spilaði heitir „The Morning After the Rain,“ og bauð hann vinum, vinnufélögum og fjölskyldu á tónleikana og u.þ.b. þrjátíu manns mættu. Verkið fjallar um hvernig það er að vera venjulegur maður, í venjulegri vinnu og með venjulega fjölskyldu.

„Verkið var sett saman eftir að ég fór í gegnum ákveðna erfiðleika, sem ég ætla ekki að fara nánar út í. Verkið er í raun úrvinnsla eftir þá og ákveðinn ástarsöngur til þeirrar staðreyndar að það er gaman að takst á við lífið, eins klikkað og það er. Lífið er skemmtileg áskorun.“ – Sigurjón 

sigg-2

Eins og einn tónleikagestur sagði orðrétt:

„Sagan af því hvernig uppklappslagið varð til er því meira uppörvandi sem ég hugsa meira um hana. Ég ætla ekki að segja ykkur hana, þið verðið að hlusta á tónleikana, það er vel þess virði. En ég held að við séum summan af því sem við gerum og því sem kemur fyrir okkur. Saga Sigurjóns segir mér að ef við nýtum slæmu reynsluna til góðs, þá gerir hún okkur að betra fólki og í framhaldi heiminn betri. Í dag, þegar maður þarf virkilega á innblæstri að halda til að sökkva ekki í þunglyndi vegna ástands heimsins, þá eru þetta afskaplega góð skilaboð. Svo takk fyrir að gera daginn minn betri, Sigurjón!“

„Ekki það að ég hafi haft það að markmiði að bæta nokkurn skapaðan hlut, mig langaði bara að halda tónleika, og gerði það. En svei mér þá, þetta comment eitt segir mér að tónleikarnir hafi skilað meiru en ég átti von á.“ – Sigurjón

sigg

Sigurjón fékk sinn fyrsta gítar fjórtán ára gamall og síðan þá hefur hann verið að semja lög. Kappinn hefur samið yfir 600 lög en hann gengur með þá hugmynd í maganum að koma með eitt frumsamið lag á dag á youtube í heilt ár! Á næstunni er Sigurjón að fara í hljóðver og taka verkið upp.

„Mig langar helst að vinna þetta „heima“ í Hveragerði. Á sama tíma er ég opinn fyrir því að spila þessa tónleika í gegn hvar sem er. Eftir stofutónleikana hef ég fengið fyrirspurnir um að spila á átta stöðum út um allt land, fimm þeirra á Íslandi, ein frá Danmörku og ein frá stað í Belgíu sem sérhæfir sig í „folk music.“ Kannski fer ég að taka eitt og eitt gigg. Kannski fer ég bara hring í kringum landið í sumar, allt er opið í þessu.“ – Sigurjón 

Skrifaðu ummæli