VILT ÞÚ LÁTA SEMJA LAG SÉRSTAKLEGA UM ÞIG?

0

Ljósmynd: Hans van Wijk & Brenda van Wijk

Heidatrubador, aka Heiða Eiríksdóttir, Heiða „í unun,“ Heiða með Langspil -íslenskt já takk á Rás 2 eða Heiða Hellvar er að safna pening til að gefa út fyrstu sólóplötu sína í yfir 10 ár á vínylplötu. Þetta verkefni er nú komið á karolinafund.

Á plötunni má finna 10 lög og texta eftir Heiðu og uppistaðan er það efni sem  safnast hefur upp hjá henni og hentar fremur kassagítars-útsetningum en rokkaðri útsetningum, en Heiða hefur ásamt manni sínum Elvari Geir Sævarssyni í Hellvar, samið mestmegnis fyrir þá hljómsveit síðustu ár. Platan verður fyrsta breiðskífa hennar sem kemur út á vínylformi, en Heiða er mikill aðdáandi hljómplötunnar og þetta er því gamall draumur að rætast. Platan er jafnframt fyrsta hljómplatan sem Heiða tekur að öllu leiti upp sjálf, ásamt því að leika á öll hljóðfærin, en Curver Thoroddsen aðstoðaði með mix og masteringu.

Ljósmynd: Hans van Wijk & Brenda van Wijk

Það verður hægt að fá plötuna á rafrænu formi, geisladisk og kassettu þegar fram líða stundir, en áherslan er sett á að koma plötunni út á hljómplötu.

Síðan söfnunin fór af stað fyrir rúmri viku hefur hver ógæfan á fætur annarri dunið yfir heiminn, vægast sagt umdeildur forseti kosinn í Bandaríkjunum og mikill meistari Leonard Cohen er látinn, en það má samt ekki láta það stoppa sig.

„Ég er ekki tilbúin að leggja árar í bát og hætta að gefa út tónlist þótt mikið óvissuástand ríki í heiminum vegna kosningar Donalds Trump. Ég á marga vini í Bandaríkjunum og skil vel þá angist og óöryggi sem fólk upplifir um þessar mundir, en það er aldrei eins mikilvægt og núna að sinna listum og menningu og vera sýnilegur sem jákvætt afl, sem er mótvægi við hræðslu, fordóma og kynþáttahatur sem stuðningsmenn Trump virðast standa fyrir. Ég er að semja friðarlag sem verður gefið út á netinu þegar söfnunin mín skríður yfir 25%, en nú stendur hún í 23% af þeim 3000 Evrum sem þarf að safna til að framleiða plötur.“ – Heiða

Söfnuninni lýkur í byrjun desember en í byrjun næsta árs mun Heiða eða Heidatrubador leggja land undir fót og spila víðsvegar um Evrópu, ein með kassagítarinn. Á söfnunarsíðunni má styrkja útgáfuna með því að kaupa rafrænt niðurhal, kaupa sér eina, þrjár, fimm eða tíu plötur, bóka tónleika með Heidatrubador eða fá lag samið sérstaklega um sig.

https://twitter.com/heidatrubador

Comments are closed.