VIKTOR HELGI HJARTARSON

0

viktor banner 1

Snjóbrettakappinn, landsliðsþjálfarinn og ofurhuginn Viktor Helgi Hjartarson er einn flottasti snjóbrettamaður landsins og þó víðar væri leitað. Eins og flestir snjóbrettaáhugamenn vita tók Viktor mikla byltu á Volcanic Big Jump (sem er einn stærsti stökkpallur Íslands) á Iceland Winter Games á dögunum. Viktor er viðmælandi vikunnar á Albumm.is og sagði hann okkur frá Byltunni miklu, hvenær og hvar snjóbrettaáhuginn byrjaði og Íslenska landsliðinu á snjóbrettum svo fátt sé nefnt.


Hvenær byrjaðir þú á snjóbretti og hvernig fékkstu áhuga á því?

Ég byrjaði á snjóbretti tólf ára gamall. Ég var búsettur í pizzabænum mosó og skólinn var að fara í skíða og bretta ferð í skálafell. Ég var þá tiltölulega nýfluttur frá Danmörku og gat ekki hugsað mér að fara á neitt annað en snjóbretti. Það var því suðað í mömmu og pabba í marga daga þangað til hún loks féll á að fara með mig og kaupa mitt fyrsta bretti. Ég man vel eftir fyrstu ferðinni í ártúnsbrekku. Mamma skutlaði mér og fylgdist með mér reyna og reyna og að standa í lappirnar, ég er nokkuð viss um að hún hafi hrist hausinn og hugsað með sér hvern djöfulinn hún væri að gera að kaupa bretti handa syninum (hlátur).

viktor 7

Hvað er svona gaman við að vera á snjóbretti og sérðu fyrir þér að ræda alla ævi?

Það fyrsta sem fékk mig til að elska snjóbrettið var hversu cool mér fannst þetta vera. Þetta var adrenalín í bland við stíl. Ég var hooked. Eftir 16 ár af snjóbretta rennsli er ég alveg jafn hooked. En núna er það lífsstíllinn, útiveran, vinirnir og hreyfingin sem heillar mig. Ég mun renna mér eins lengi og líkaminn leyfir.

viktor pro

Þú ert landliðsþjálfari Íslenska snjóbrettaliðsins hvernig kom það til, hvað er landsliðið gamalt og hvernig fara æfingarnar fram?

Það er ansi löng saga á bakvið stofnun afrekshópsins. Þetta byrjaði allt saman á því að við stofnuðum brettadeild innan skíðasambandsins. Ég hafði reynt í tvö ár ásamt góðum hópi brettafólks að stofna deildir og félög um allt land undir snjóbrettafélagi Íslands. Planið var að fá það síðan viðurkennt sem íþróttafélag. Það reyndist of erfitt fyrir okkur og eftir tvö til þrjú ár var ég komin með leið á því að bíða og reyna að fá þetta viðurkennt sem íþróttafélag og sá tækifæri í því að fá þetta inn undir skíðafélagi akureyrar. Brettadeild SKA og Brettadeild Breiðabliks var stofnuð, í kjölfarið hefur brettafélag hafnarfjarðar og brettadeild fjarðarbyggðar sprottið upp. Eitthvað sem ég gat ekki gert þegar ég var yngri var að æfa mig á snjóbretti, undir leiðsögn þjálfara í parki með railum og pöllum. Ég varð að fara til Svíþjóðar í menntaskóla með mínum vinum til að upplifa það. Með skipulagðri starfsemi um allt land hafa bretta aðstæður um allt land batnað svo um munar. Það eru ótal keppnir haldnar í hlíðarfjalli, bláfjöllum og oddskarði og krökkum fjölgar á hverju ári. Ég gæti aldrei hafa ímyndað mér að krakkarnir yrði svona góðir eins og þeir eru í dag. Það má því að segja að þessi afrekshópur hafi verið stofnaður af nauðsyn, til að gefa þessum einstaklingum sem skara framm úr enn meiri stuðning og hjálp við að ná lengra.

viktor 12

Hvernig eru æfinga og keppnisferðum háttað hjá landsliðinu og er farið í margar slíkar ferðir á ári?

Í ár fórum við í fjórar ferðir, tvær æfingar ferðir og tvær keppnisferðir. Þetta var fyrsta ár afrekshópsins. Við byrjuðum tímabilið á æfingu í hlíðarfjalli 1. júní til 8 júní í fyrra sumar. Þessi æfing var aðallega til að kynnast hvor öðrum og renna okkur saman sem hópur. Svo fórum við í tvær vikur til austurríkis í október. Þetta var í raun okkar fyrsta alvöru ferð saman. Við fórum til Stubai, 1.5 klst frá Innspruck. Þetta var frábær æfingarferð þar sem strákarnir gátu fengið afnot af einu besta parki í heiminum mjög snemma á tímabilinu. 
Þriðja ferðin var svo farin í byrjun janúar, enn þá fórum við til Meyrhofen að keppa á Groms open. Strákarnir stóðu sig eins og hetjur þar. Benni vann sinn flokk, Baldur tók fjórða sætið í sínum hóp og Marínó 7 sætið í elsta hópnum sem var virkilega flott. 
Eftir það keyrðum við til Livigno í Ítalíu til að taka þátt á world rookie tour. 
Við fengum frekar leiðinlegt veður þar enn Baldri tókst samt að lenda í 12. sæti í sínum flokk sem var alveg magnað. Planið er að stækka þennan hóp og bæta við ferðum á næsta ári.

vik1

Hvar er best að renna sér á snjóbretti á Íslandi og hvað er besti staður sem þú hefur rennt þér á?

Ég er algjörlega hlutdrægur þegar kemur að þessu, mér finnst alltaf Hlíðarfjall best, enda heimafjallið í mörg mörg ár. En Siglufjörður og Oddskarð eru virkilega flott fjöll líka.  Af öllum þeim stöðum sem ég hef rennt mér á toppar ekkert Laax í Sviss, parkið, aðstæður og snjórinn. En ef við erum bara að tala um park þá tekur kläppen topp sætið.

viktor 4

Þú hefur smíðað ófáa snjóbrettapalla í gegnum tíðina og nú síðast Volcanic Big Jump á Iceland Winter Games. Var hann lengi í vinnslu, er þetta stærsti pallur sem þú hefur smíðað og og var hann ekki nokkuð ógnvægilegur? 

Þessi pallur var lengi í smíði, við byrjuðum að safna snjó í hann í janúar og hann var ekki tilbúin fyrr en um miðjan mars. Þetta er án efa stærsti pallur sem ég hef smíðað hvað varðar hæð og lofttíma, en 2.5 sek lofttími er rosalegt. En ég hef smíðað lengri palla samt sem áður, en lengd segir oft ekki alveg allt. Þetta er samspil á gráðum, lengd og hæð. Volcano var sérstakur að því leyti að hann var með mjög bratta lendingu og bröttum palli en stuttur, aðeins 17 metrar að lengd.

vikt

Þú áttir fyrsta stökkið á pallinum en á sjálfann keppnisdaginn voru skilyrði ekki nógu góð og erfitt var að ná hraða á pallinn. Þú gerðir nokkrar tilraunir en endaðir á að taka mjög svo slæma byltu, hvað gerðist og hvað varstu að hugsa í loftinu?

Ég átti fyrstu þrjú stökkin á pallinum daginn fyrir keppnisdag og hann var fullkominn í alla staði. Ég var ótrúlega stoltur af þessum palli því hann gaf manni svo mikinn tíma í loftinu, miðað við hvað hann var stuttur. Og það sem var kanski mikilvægast, hann var low impact í sweetspot. Sweetspot er staðurinn í lendinguni þar sem maður vill helst lenda, í tilfelli volcano pallsins var þar 1-2 metrar ofan í lendinguna, en þegar ég hitti á þann stað kiknaði maður varla í hnjánum undan honum. Á keppnisdeginum fengum við þessa ömurlegu snjókomu og mótvind. Snjókoman sem við fengum var af verstu gerð. Það er að segja, það snjóaði í 1+ gráðu. Snjórinn var því fáránlega hægur. Þetta varð til þess að ég fór þrjár ferðir að reyna að finna hraða til að drífa yfir enn náði aldrei nægilegum hraða. Ég fór því og vaxaði brettið fyrir rétt hitastig, lét mylla aðkomuna á troðara, skafaði nýja snjóinn af pallinum og fór þrisvar sinnum hærra upp í brekkuna en ég hafi þurft deginum áður. Brunaði og dreif samt ekki. Eftir það var ég á því að við ættum að hætta við keppnina, en þegar maður sá allt fólkið bruna upp eftir að fylgjast með, og mikil pressa var komin á mótshaldarana að redda þessu datt einum í hug að láta sleða draga okkur niður að pallinum til að ná hraða. Ég var efins um þetta en lét í raun tala mig inn á þetta án þess að hlusta á röddina sem segir manni að gera þetta ekki. Eitthvað sem maður á aldrei að láta gerast. Ég lét vaða og hélt í raun að ég væri fara of hægt aftur en þegar ég fór svo upp í loftið áttaði ég mig á því að ég væri að fara allt of hratt. í loftinu var ég bara að hugsa um að lenda eins mjúklega og ég gat. Ég hafði þrjár sekúndur til að hugsa mig um og stilla mig af. Ég missti nánast af lendinguni og lenti því mjög þunglega. Braut hægra hælbeinið frekar illa, sleit krossbandið í vinstra hnéinu og eyðilagði brjóskið þar líka. Braut vinstri olnbogann og fór úr lið þar ásamt því að slíta liðbandið.  Þetta var alvöru trauma slys, ég eyddi 14 dögum á skurðdeildinni og fór í þrjár aðgerðir til að laga hælinn, hnéð og olnbogann. Núna er ég að bíða eftir því að allt saman grói svo ég get hafið endurhæfingu. Ég veit ekki hversu lengi ég verð að ná mér nákvæmlega en ætla mér þó að vera komin í gott form fyrir næsta vetur.

Þegar þú ert búinn að ná þér að fullu á að skella sér á snjóbretti aftur?

Að sjálfsögðu. Þetta er ekki fyrsta slysið sem maður lendir í. En ætli ég fari nú samt ekki að hægja aðeins á mér, maður er víst komin með fjölskyldu og þá þarf maður að fara príoritera hlutinu svolítið. Heilsan er það mikilvægasta sem maður á og ég vil frekar geta rennt mér með strákunum mínum í framtíðinni í stað þess að þurfa að standa á hliðarlínunni.

viktor 9

Hvað er framundan hjá þér og er stefnan sett á að vinna eitthvað tengdu snjóbretti í framtíðinni?

Ég vil halda áfram að þróa afrekshópinn, gera það að öflugum hópi sem hjálpar ungu brettafólki að ferðast og ná lengra. Svo er ég að vinna í að fá leyfi til að halda World Rookie tour á Íslandi. Ég vil að allir krakkar á íslandi þurfi ekki að ferðast til útlanda til að taka þátt í alþjóðlegri keppni. Þetta starf sem hefur verið í gangi á íslandi síðastliðin fimm ár hafa verið frábær, ég vil þakka öllum foreldrum og þeim sem hafa hjálpað við að halda keppnirnar, æfingarnar og laga aðstöðuna til hins betra.

Comments are closed.