VIÐ VORUM MJÖG HISSA OG ALVEG Í SKÝJUNUM

0

Hljómsveitin Between Mountains sigraði í Músíktilraununum 2017 en að þeirra sögn kom það þeim skemmtilega á óvart! Sveitin samanstendur af Kötlu Vigdísi og Ásrós Helgu en þær svöruðu nokkrum skemmtilegum spurningum um keppnina og framtíðina!


Hvað er Between Mountains búin að vera stafrandi lengi og hverjir eru meðlimir sveitarinnar?

Hljómsveitin Between Mountains samanstendur af þeim Kötlu Vigdísi og Ásrósu Helgu, hljómsveitin var stofnuð í byrjun mars svo hún hefur verið starfandi í um mánuð.

Var undirbúningurinn mikill fyrir þátttöku ykkar í Músíktilraununum 2017?

Þótt að það hafi ekki verið langur tími til að æfa fyrir tilraunirnar, voru æfingarnar samt margar og seinustu vikuna æfðum við á hverjum degi.

Kom sigurinn ykkur á óvart?

Það kom okkur skemmtilega á óvart að við skyldum hafa komist áfram og ákváðum við þá bara að njóta úrslitakvöldsins og vera bara mjög afslappaðar því að það var í rauninni engin pressa að vinna, við vorum nú þegar komnar lengra en við bjuggumst við. Við vorum þess vegna mjög hissa og alveg í skýjunum þegar úrslitin voru ljós!

Hvert er framhaldið og er jafnvel von á plötu frá sveitinni?

Í framhaldinu af þessu ætlum við að reyna að koma okkur sem mest á framfæri og reyna að spila eins mikið og við getum, sérstaklega á meðan við erum ennþá með titilinn „Sigurvegarar Músíktilrauna.“ Við ætlum síðan auðvitað að nýta stúdíó tímana sem við unnum og kannski gefa út litla plötu.

Skrifaðu ummæli