VIÐ VORUM OF KÁT TIL AÐ GETA VERIÐ PÖNKARAR

0

Jakob Smári Magnússon og Björk í góðri sveiflu.

Hljómsveitin goðsagnakennda Tappi Tíkarass er komin aftur á kreik en hún var stofnuð í septembermánuði árið 1981.Sveitin var í upphafi skipuð fjórum piltum sem nú eru orðnir menn en fljótlega gekk Söngkonan Björk Guðmundsdóttir til liðs við sveitina og voru þá söngvararnir orðnir tveir, Björk og Eyþór Arnalds.

Eyþór Arnalds, Björk og Jakob trylla lýðinn.

Tappi Tíkarass gaf út stuttskífu árið 1982 sem ber heitið Bitið fast í vitið og í kjölfarið kom út þeirra fyrsta plata Miranda árið 1983. Um þetta leiti kom út heimildarmyndin Rokk í Reykjavík en hún tók púlsin á þeim hljómsveitum sem spilaði svokallaða Alternative tónlist. Tappinn kom að sjálfsögðu fram í myndinni og flutti sveitin lögin „Hrollur” og „Dúkkulísur.” Rokk í Reykjavík varð gríðarlega vinsæl og er í dag löngu orðin að klassík!

Jakob Smári Magnússon.

Eins og fyrr hefur komið fram er Tappi Tíkarass vöknuð úr dvala og mikið er um að vera hjá sveitinni! Tónleikar og plata er brot af því sem koma skal en Albumm.is náði tali af Jakobi Smára Magnússyni og sagði hann okkur allt um málið.

Hvernig kom það til að Tappi Tíkarass ákvað að koma saman aftur?

Hugmyndin kom upp þegar þrír okkar hittumst á veitingastað í borginni og borðuðum saman naut. Okkur datt í hug að gaman væri að hittast með hljóðfæri í hönd og rifja upp eitthvað af þessum lögum sem við höfðum samið fyrir 35 árum áður en Björk gekk til liðs við hljómsveitina. Í upphafi vorum við fjórir og sömdum helling af lögum sem mörg duttu út þegar Eyþór hætti í bandinu. Það kom í ljós að við mundum slatta af lögum en í einhverjum tilfellum mundum við bara titil eða textabrot. Við fórum að hittast vikulega og þegar við vorum búnir að rifja upp það sem við mundum sigtuðum við út hvað okkur fannst þess virði að blása frekara lífi í og hvað mátti setja aftur í kistuna og við fórum að semja ný lög. Áður en við vissum af vorum við komnir í stúdíó að taka upp plötu og nú ætlum við að halda tónleika. Tappinn hefur alltaf verið óskipulagður. Hlutirnir bara gerast eða gerast ekki.

Tappi Tíkarass.

Er sama stemmning í hópnum og var á sínum tíma?

Það er sama sköpunar- og spilagleðin í gangi núna eins og þá. Það er svo gaman að búa til og spila tónlist með góðum félögum og geta gert nákvæmlega það sem maður vill. Það er djúp vinátta á milli okkar sem skilar sér í tónlistinni.

Þið eruð að vinna að nýju efni, við hverju má fólk búast?

Við erum búnir að taka upp fjórtán lög, þar af tíu ný. Nýju lögin eru sum í anda þeirra laga sem við sömdum á síðustu öld önnur ekki. Ég held að megi segja að þetta sé eðlileg þróun frá því sem við vorum að gera í upphafi. Lögin hafa komið til okkar áreynslulaust. Við erum ekkert að rembast við að endurgera það sem var. Tappinn er eilífur í eðli sínu og þekki ekki mun á fortíð, nútíð og framtíð. Hann bara er.

Eyþór Arnalds, Jakob Smári Magnússon, Guðmundur Þór Gunnarsson og Eyjólfur Jóhannsson eru Tappi Tíkarass.

Er sama pönk attitjúdið til staðar eða eru menn búnir að mýkjast upp?

Tappinn var í raun aldrei pönkhljómsveit en attitjúdið var og er til staðar og hefur aukist ef eitthvað er. Við vorum of kátir krakkar til að geta verið pönkarar. Gleðin er til staðar ásamt uppsafnaðri reiði. Það er miklu auðveldara að vera reiður þegar maður er kominn yfir fimmtugt heldur en þegar maður er sautján ára. Af hverju á maður að vera reiður þá?

Er von á því að Björk taki lagið með Tappanum?

Ég á ekki von á því nei. En hún er að sjálfsögðu velkominn. Eitt sinn Tappi ávallt Tappi segir hið fornkveðna.

Þið komið fram á Húrra í kvöld 19. Janúar verður ekki sviti, gleði og rokk?

Sviti gleði og rokk er einmitt það sem  verður í boði á Húrra í kvöld. Ekkert flóknara en það. Tappinn er einfaldur og ekkert fyrir það að flækja hlutina. Við blöndum saman gleði og reiði og útkoman er greiði. Við erum greiðir. Það segir allt sem segja þarf en segir samt ekkert. Fólk verður bara að upplifa þetta sjálft. Við lofum engu og svíkjum þar af leiðandi engan.

Tónleikarnir hefjast kl 20:00 og kostar litlar 2.000 kr og hægt er að nálgast miða á Tix.is

Skrifaðu ummæli