„VIÐ LÖBBUÐUM UM SKÓGINN, HÚN MEÐ MYNDAVÉLINA OG ÉG Í HVÍTRI KÁPU”

0

Í framhaldi af því að hafa spilað 3 tónleika í Reykjavík í byrjun mánaðar sendir Sunna frá sér sitt fyrsta tónlistarmyndband við lagið  „Hero Slave.”

„Þegar nístandi kuldinn grípur okkur inn að beini með komandi vetri er gott að láta hugann reika þangað þegar sólin vermdi og fuglarnir sungu.“

Myndbandið var tekið upp í Sviss seinasta sumar. Að myndbandinu komu tónlistarkonan sjálf, ljósmyndarinn og vinkona Sunnu, Senta Simond ásamt grafíska hönnuðinum og tónlistarmanninum Guðmundi Úlfarssyni. Senta er þekkt fyrir sérstaklega öðruvísi nálgun á rómantískar aðstæður í ljósmyndum sínum en hún notar óhefðbundin sjónarhorn og lýsingu. Þetta vakti athygli Sunnu og varð kveikjan að myndbandinu. Vinkonurnar tvær lögðu af stað upp í skóg og byrjuðu að mynda.

„Við löbbuðum um skóginn í steikjandi hita, hún með myndavélina og ég í risastórri hvítri kápu. Það er því ekki skrítið að við enduðum útí vatni til þess að kæla okkur niður.“

Sunna býr þessa dagana í Lausanne í Sviss þar sem hún stundar nám í myndlist. „Hero Slave” varð til milli þess sem Sunna braut hugann í stúdíóinu.

„Textinn er sambland af draumi, veruleika og æskuminningum. Ég var stödd í veislu þar sem aðalumræðuefnið var flaska með dularfullu innihaldi. Svo fór að hún var á endanum opnuð. Um nóttina bjargaði hundur mér frá innihaldi flöskunnar og þaðan kemur nafnið: Hero Slave.“

Það er von á meiri tónlist frá Sunnu en hún segist stefna á að gefa nokkur stök lög út áður en hún hugi að plötugerð.

Ssuunnaa.com
Soundcloud.com

Skrifaðu ummæli