„Við finnum fyrir auknum áhuga á hlaupahjólaíþróttinni á Íslandi“

0

Hlaupahjólaverslunin StreetAction opnaði um haustið 2015 og hefur allar götur síðan stutt við bakið á hlupahjólaíþróttinni. Fyrst um sinn var verslunin í bílskúr en stuttu seinna færðist hún í stærra húsnæði! Hjörtur Sólrúnarson eigandi StreetAction segir íþróttina mjög vinsæla hér á landi og með tilkomu hlaupahjólanámskeiða sem verslunin stendur fyrir fer þessu bara fjölgandi!

Hjörtur svaraði nokkrum skemmtilegum spurningum um íþróttina, námskeiðin og nýja húsnæðið svo sumt sé nefnt!


Hvenær opnaði StreetAction og hver er áhersla verslunarinnar?

StreetAction opnaði haustið 2015 í bílskúrnum hjá okkur. Við ákváðum að byrja smátt en við sáum fljótlega að áhuginn á hlaupahjólunum sem við buðum upp á var meiri en við kanski reiknuðum með, og í febrúar 2016 fórum við í stærra húsnæði. Áherslan hjá okkur hefur alltaf verið hlaupahjól og allir fylgi og aukahlutir í kringum þau. Við buðum líka strax upp á viðgerðir, samsetningar og viðhald hlaupahjóla, eitthvað sem hafði ekki verið til staðar fram að við opnuðum.

Nú er verslunin flutt í nýtt húsnæði, hvar er það og hvernig kom það til?

Breytingin sem hefur átt sér stað er sú öll physical sala, svo ég sletti aðeins, fer fram í verslun Jaðar íþróttafélags í Dugguvogi 8, og allar vörurnar okkar eru staðsettar þar. Ég stend vaktina í þeirri verslun þannig að okkar viðskiptavinir, bæði gamlir og nýjir fá sömu góðu þjónustuna og við höfum reynt að inna af hendi frá því að við opnuðum. Það hefur alltaf verið stór partur hjá okkur, að veita persónulega og góða þjónustu. Svo erum við að vinna að heimasíðu þar sem að hægt verður að panta hlaupahjól og parta. Hún verður vonandi tilbúin fljótlega.

Nú heldur StreetAction úti hlaupahjólanámskeið. Hvenær hófst sú starfsemi og fer hlaupahjólaáhuginn ekki ört stækkandi?

Já við byrjuðum með námskeið síðasta haust eftir þó nokkra eftirspurn, fórum af stað með námskeið bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Það er ekki hægt að segja annað en að þau hafi slegið í gegn. Við höfum verið með milli 30 og 40 krakka á námskeiðum hjá okkur í hvert skipti, stundum færri að sjálfsögðu þegar að tíminn hefur verið þannig, rétt fyrir jólin og svoleiðis. Það hefur reyndar verið frekar rólegt frá febrúar, en það er út af þessu umstangi öllu með breytinguna á búðinni, flutninginn úr Egilshöllinni þar sem að við vorum til að byrja með, og standsetningunni á parkinu í Dugguvogi 8. En við erum að kíla þetta af stað aftur og ætlum að halda áfram ótrauð. Við erum að bjóða upp á tveggja helgarnámskeið þar sem að kennd eru undirstöðuatriðin á hlaupahjólum. námskeiðin eru bæði á laugardögum og sunnudögum og eru einn og hálfur klukkutími á dag. Við finnum fyrir auknum áhuga á hlaupahjólaíþróttinni, sem okkur finnst að sjálfsögðu frábært.

Hvenær byrjar næsta námskeið og hvar er hægt að skrá sig?

Næsta námskeið byrjar núna næsta laugardag, 21 apríl og það er ennþá pláss. Það er hægt að skrá sig með því að senda póst á namskeid2018@gmail.com með nafni iðkenda og kennitölu.

Hvað er framundan hjá StreetAction og eitthvað að lokum?

Við ætlum að sjálfsögðu að halda áfram að styðja við bakið á hlaupahjólaíþróttinni með ýmsu móti. Ásamt því að bjóða upp á hlaupahjól og alla aukahluti, þá ætlum við að hafa keppnir og viðburði á árinu sem gaman verður að taka þátt í, og svo er aldrei að vita en að það heimsæki okkur flottir hlaupahjóla “riderar” í sumar. Það verður látið vita af því á facebook síðunni okkar og á Instagramminu okkar.

Svo vil ég bara hvetja alla til að kíkja í Dugguvog 8, bæði í verslunina og á parkið. Og alveg í lokinn, þá erum við með 20% afslátt af öllum aukahlutum út vikuna hjá okkur til að fagna því að sumarið er að koma!

Skrifaðu ummæli