„VIÐ ERUM MEIRA TÓNLEIKABAND HELDUR EN STÚDÍÓVERKEFNI“

0

Hljómsveitin Vök er á blússandi siglingu um þessar mundir en hún sendi nýverið frá sér plötuna Figure. Platan er samansafn af lögum sem voru samin yfir þriggja ára feril og er elsta lagið „BTO” frá árinu 2013.

Sveitin blæs til heljarinnar útgáfutónleika á morgun föstudag 8. Júní í Gamla Bíói og óhætt er að segja að öllu verður til tjaldað.

Albumm.is náði tali að sveitinni og svaraði hún nokkrum spurningum um nýju plötuna, hvaðan þau sækja innblástur og hvað sumarið ber í skauti sér.


Er Figure búin að vera lengi í vinnslu og er hún eitthvað frábrugðin fyrri verkum?

Figure er samsafn af lögum sem voru samin yfir 3 ára feril. Elsta lagið á plötunni „BTO” er frá 2013 og það nýjasta „Breaking Bones” var samið stuttu áður en upptökur hófust 2016. Við byrjuðum upptökuferlið sumarið 2016 og við kláruðum að hljóðblanda plötuna í desember. Hún er frábrugðin fyrri verkum þar sem þetta var í fyrsta skipti í sögu hljómsveitarinnar þar sem við vorum að taka upp m.a. akústik trommusett. Einnig tókum við upp mikið af okkar eigin sömplum og smíðuðum okkar eigin hljóðheim nánast alveg frá grunni.

Hvaðan sækið þið innblástur fyrir ykkar tónlistarsköpun og hverjir eru ykkar helstu áhrifavaldar?

Helstu áhrifavaldar hljómsveitarinnar eru Massive Attack, Portishead, Little Dragon & Air.

Hvernig verða lögin til og hvernig græjur notið þið við ykkar tónlistarsköpun?

Margrét byrjar lagasmíðina yfirleitt með því að semja grunninn. Oftar en ekki er þetta intro-verse-viðlag og kannski brú. Þannig fyrstu demoin af lögum eru yfirleitt í kringum 1 ½ min löng. Svo mótast restin af laginu í gegnum samstarf hljómsveitarinnar, oft þegar við erum að undirbúa okkur fyrir tónleikahald. Þannig það mætti gera rök fyrir því að við erum meira tónleikaband heldur en stúdíóverkefni. Græjurnar sem eru notaðar í tónlistarsköpuninni eru Ableton Live, Native Instruments, Soundtoys, Nord hljómborðið hennar Margrétar, Gítar/Bassi.

Nú eruð þið að halda útgáfutónleika í Gamla Bíói á morgun 8. Júní. Við hverju má fólk búast á tónleikunum?

Þá má búast við einu rosalegasta ljósasýningu sem þessi hljómsveit hefur boðið uppá! Við ætlum að leika nýju plötuna okkar í bland við eldra efni. Það verður eitthvað fyrir alla!

Hvað ber sumarið í skauti sér og eitthvað að lokum?

Í sumar munum við koma fram á nokkrum tónlistarhátíðum í Evrópu, þar má telja í Sviss, Ítalíu, Noregi og Þýskalandi. Við ætlum svo líka að reyna að njóta að vera í íslenska sumrinu eins mikið og við getum áður en við förum í frekari tónleikaferðir í haust.

Hægt er að nálgast miða á tónleikana á Tix.is

www.vok.is

Skrifaðu ummæli