VIÐ ERUM BÆÐI TALSVERÐIR HIPPAR Í OKKUR

0

Hljómsveitin Sycamore Tree var að senda frá sér glænýtt lag sem ber heitið „Home.” Gunnar Hilmarsson og Ágústa Eva Erlendsdóttir skipa sveitina en hljóðheimur hennar er vægast sagt ævintýralegur! Albumm.is náði tali af Gunna og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum.


Um hvað er lagið „Home” og er það búið að vera lengi í vinnslu?

Home fjallar um ástina og hvaða áhrif hún getur haft á jafnvel kaldasta fólk. Heimurinn sem við lifum í þarfnast meiri hlýju og friðar. Við erum bæði talsverðir „hippar“ í okkur og setjum þess vegna kannski aðra hluti í forgrunn heldur en margir. Við erum kannski pínu gamaldags. Eða þannig.

Hvaðan sækið þið innblástur fyrir ykkar tónlistarsköpun?

Satt að segja er ég ekki viss. Við hlustum bæði á allskonar tónlist, bæði nýtt og gamalt. Við fílum bæði hugmyndafræði og sound á tónlist frá sjötta og sjöunda áratugnum. Tónlist þess tíma var með meiri fókus á uppbyggingu og fallegar laglínur. Kannski heiðarlegri á margan hátt. Við viljum að lag geti staðið með eingöngu sönglínu og gítar. Allt annað er bara skraut sem reyndar gerir ansi mikið oft. Reyndar er Ágústa Eva ekki að fíla Bítlana. Ég er að vinna í því. Það kemur.

Home er ansi ævintýralegt og tekur viðkomandi í eitt allsherjar ferðalag, var það ætlunin og gefur þetta lag forsmekkinn af því sem koma skal?

Það var í raun ekki ætlunin. Lagið þegar við gerðum það fyrst var afar einfalt lag með gítar og sönglínu. Mjög gamaldags í raun. Það var síðan með útsetningu Ómars Guðjóns og Bjarni Frímann með sínum strengjum sem færði lagið í nýja vídd og dýpt. Lagið hefur þennan seiðandi og draumkennda hljóm sem er einhvern vegin okkur Ágústu Evu eðlislægt og er Sycamore Tree soundið. Magnús Öder sem mixar okkur skilur upp á hár hvernig á að ná því besta úr okkur. Ég held að lagið og reyndar hin tvö sem komu á undan gefi ansi góða mynd á hvernig hún mun hljóma.

Er plata í vinnslu og hvað ber sumarið í skauti sér?

Platan er í vinnslu og við erum að horfa á september sem útgáfu mánuð. Sumarið fer í að fullklára lögin og vinna þau í stúdíóinu. Það verður ekki mikið um „life” flutning hjá okkur á meðan en við munum bjóða upp á myndarlega útgáfutónleika ásamt minni tónleikum tengda útgáfu plötunnar. Það verður vægast sagt gaman hjá okkur á meðan að á þessu stendur.

Eitthvað að lokum?

Ást & Friður

http://www.sycamoretreeband.com

Skrifaðu ummæli