„VIÐ BARA SEMJUM ÞAÐ SEM OKKUR LANGAR TIL“

0

Tónlistarmaðurinn Birgir Steinn Stefánsson eða einfaldlega Birgir var að senda frá sér sína fyrstu EP plötu sem ber einfaldlega heitið Birgir. Platan er búin að vera í vinnslu frá því sumarið 2016 en að sögn Birgis voru mörg lög á teikniborðinu og afar erfitt að velja hvaða lög pössuðu á plötuna.

Birgir situr aldrei auðum höndum en hann og Andri Þór Jónsson sem semur plötuna með honum ætla að herja á spilamennskuna í sumar og taka upp nýtt efni.

Albumm.is náði tali af Birgi og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum.


Er platan búin að vera lengi í vinnslu og hvaðan sækir þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Já, það má segja að þetta hafi verið nokkuð lengi í vinnslu, svona miðað við að þetta er bara fimm laga EP plata. Ég og samstarfsfélagi minn Andri Þór Jónsson erum í raun búnir að vinna í henni síðan sumarið 2016. Við erum með mörg lög sem komu til greina og fullan banka af hugmyndum. Það var aðallega erfitt að velja hvaða lög pössuðu best saman og færu þar með á plötuna. Við erum mjög ánægðir með útkomuna og ég er afar þakklátur fyrir viðbrögðin sem platan hefur fengið hingað til.

Hvað varðar innblástur þá myndi ég segja að hann komi úr mörgum áttum, en við erum aðallega að semja út frá því hvernig okkur líður að hverju sinni, svo pússlum við þessu saman þangað til okkur finnst við vera komnir með flott efni. Við bara semjum það sem okkur langar til þess að semja og það er bara algjör bónus ef fólk tekur vel undir.

Á að fylgja plötunni eftir með tilheyrandi tónleikahaldi?

Jú, við verðum með útgáfutónleika í sumar þar sem við komum til með að flytja plötuna í heild sinni ásamt öðru nýju efni. Dagsetning og staðsetning verða auglýstar síðar.

Hvaða plötu getur þú hlustað á endalaust og hvað er það við þá plötu sem heillar þig?

Við Andri höfum mjög svipaðan smekk, hlustum til dæmis báðir mikið á Coldplay, James Bay, James Morrison, svo ég nefni eitthvað og vafalaust má segja að við fáum smá innblástur þaðan. Ég get nefnt tvær plötur sem ég hef hingað til getað hlustað á endalaust og hugsa að það breytist seint. Annars vegar Viva la Vida or Death and All His Friends með Coldplay og hins vegar fyrstu plötu James Bay, Chaos and the Calm.

Hvað á að gera í sumar og eitthvað að lokum?

Í sumar ætla ég að halda útgáfutónleika og stefni á að vera duglegur að koma fram. Við ætlum síðan að kíkja aftur í hljóðverið og taka upp nýtt efni, svo það verður nóg að gera í sumar. Fyrst og fremst ætlum við bara að njóta þess að gera það sem við elskum að gera og okkur hefur alltaf langað til þess að gera, þ.e. semja og flytja okkar eigið efni.

Skrifaðu ummæli