VETTVANGUR TIL AÐ LÁTA EINS OG FÍFL

0

Hljómsveitin LITH sendi á dögunum frá sér sína fyrstu plötu sem einfaldlega kallast “LITH”. Bandið samanstendur af Jay sem syngur og spilar á gítar, Dodda sem syngur ekki það sama og spilar á annan gítar, Dötta sem spilar á bassa og Stjána sem kann ekki á neitt strengjahljóðfæri.

Þó bandið hafi starfað í rúm 7 ár hafa þeir ekki verið mjög duglegir við að spila opinberlega, enda í upphafi í raun bara hugsað sem “saumaklúbbur” gamalla vina. Allt hefur þetta þó undið uppá sig og frumsamin plata nú loks litið ljós. Létt andrúmsloft og yfirborðskennd karlremba hefur litað nokkuð tónleika hljómsveitarinnar enda þeirra eini vettvangur til þess að láta eins og fífl án þess að makar þeirra sussi á þá. Hljómsveitin hefur oftar en ekki reynt að draga fólk á tónleika með því að hafa innantóm loforð þess efnis að “allir fá að ríða” á tónleikaauglýsingum, en eftir að þeim barst póstur frá ungri dömu þess efnis að slíkt gæti æst um of gamla perrakalla og að þeir væru í raun að hvetja til kynferðisofbeldis þá tóku meðlimir LITH þá ákvörðun, enda sjálfir alfarið á móti þess konar hegðun, að á komandi tónleikaauglýsingum mun loforðinu breytt í “allir fá að bíða” og þeir byrji alla tónleika sína 7 mínútum eftir auglýstan tíma.

Platan tók ansi langan tíma í vinnslu, en demoútgáfur flestra laganna voru teknar upp árið 2011. Ástæður þessa langa ferlis útskýra meðlimir hljómsveitarinnar með miklum metnaði, fádæma leti og þeirri staðreynd að enginn þeirra býr í sama sveitarfélagi.

Þrátt fyrir að tvö upptökuhljóðver séu í eign meðlima þá gekk erfiðlega að finna tíma til að taka upp alla plötuna, en þess má geta að nokkur laganna hafa þó verið tekin upp, hljóðblönduð og breytt, fjórum sinnum síðan 2011 að meðtöldum þeim útgáfum sem enduðu á plötunni.

Platan var tekin upp í Bakaríið hljóðver og Studio GFG í Nóvember 2016 – Október 2017. Um hljóðblöndun sá Jakob í Studio GFG og hljóðjöfnun var á höndum Ronan Chris Murphy, sem unnið hefur með King Crimson, Steve Morse og Gwar svo eitthvað sé nefnt.

Í fyrstu var ráðgert að platan kæmi út undir þeirra eigin útgáfufyrirtæki “I´veGotBooze:SoFuckYourOlympic Records”, en þegar ákveðið var að fyrst um sinn myndi gripurinn eingöngu koma út rafrænt töldu meðlimir þann kost vænstan að gefa hana bara út undir nafni LITH.

Vegna sérvisku hljómsveitameðlima með að LITH sé skrifað með hástöfum lenti dreifingarfyrirtæki þeirra í stappi við nokkrar tónlistarveitur sem endaði með því að platan var tekin út af einhverjum þeirra að ósk hljómsveitarinnar, á meðan að aðrar veitur tóku vel í duttlunga Frónverja og einfaldlega urðu við ósk þeirra.

Hljómsveitin er hefur ekki spilað opinberlega síðan í ágúst 2017 vegna studiovinnu, barneigna, húsnæðiskaupa og vinnu meðlima en nú er platan klár, krakkinn klár, húsin klár og trommarinn hættur í vinnunni,  svo nú er ekkert sem stoppar LITH í að halda útgáfutónleika plötunnar en tilkynnt verður um þá fljótlega.

Hægt er að hlýða á plötuna í held sinni hér að neðan:

Skrifaðu ummæli