„VERKEFNIÐ LIFIR SÍNU EIGIN LÍFI, VIÐ ERUM TILGANGSLAUSIR“

0

Hljómsveitin Horrible Youth er glæný af nálinni en hún er skipuð þeim Ágústi Bent, Magnúsi Leifi og Frosta Gringo. Tónlistinni má lýsa sem Sludge/grunge og ætti sannur áhugamaður um slíka tóna ekki láta þessa snilld framhjá sér fara! Drengirnir voru að senda frá sér sitt fyrsta lag og myndband sem ber heitið „Blissful Tropes” og er bæði lag og myndband tær snilld! Fyrsta plata sveitarinnar er á næsta leiti og hlakkar okkur mikið til að hlýða á gripinn!


Hvernig kom þessi hljómsveit til og er hún búin að vera lengi í pípunum?

Það eiginlega byrjaði þegar ég (Ágúst Bent Jensson) loksins drullaðist til að kaupa mér alvöru upptökugræjur. Ég byrjaði að taka upp í stofunni í Drammen (Noregi), þar sem ég er búsettur. Þegar ég var kominn með einhver tíu lög fór ég að plaga Magga (Magnús Leifur) alla leið til Íslands. Hann tók svo sem ágætlega í þetta og í sameiningu tókst okkur að blekkja Frosta í að lemja við þetta. Þar með vaknaði verkefnið og það lifir sínu eigin lífi í dag, við erum tilgangslausir.

Hvernig munduð þið skilgreina tónlistina ykkar og hvaðan sækið þið innblástur fyrir ykkar tónlistarsköpun?

Tónlistin verður best skilgreind sem blanda af sludge metal og melódísku gruggi, niðurtjúnnað en væmið. Ég er alltaf að reyna að gera evil tónlist en enda yfirleitt flæktur í melódíum. Við sækjum allt sjónrænt frá tíunda áratugnum.

Nafn hljómsveitarinnar er þrælskemmtilegt, hvaðan kemur það?

Horrible Youth er textabrot úr einu af lögunum okkar. Ég sem svolítið eins og gamall maður sem horfir bitrum augum á æskuna á meðan hann öfundar hana laumi. Midlife angst.

Er plata í vinnslu og ef svo er hvenær er von á henni?

Platan er langt komin, sjö lög klár úr mixi og lokaupptökur á næsta leyti. Stefnan er sett á fyrrsumars útgáfu. Upptökuferlið er flókið og skemmtilegt þar sem ég bý í Noregi og tek upp alla strengi og söng hér, Maggi sér um rest á Íslandi. Aftur á móti gerast einhverjir töfrar þegar þessu er bombað svona fram og tilbaka yfir atlantshafið. Ferli sem við höfum allir lært mikið af og öðruvísi nálgun á hvernig maður keyrir hljómsveit.

Á að herja á tónleikahald og eitthvað að lokum?

Við stefnum á tónleika sem fyrst en dreifing manna á milli landa flækir hlutina aðeins. Aftur á móti erum við með tvo heimavelli sem stækkar sjóndeildarhringinn töluvert og býður upp á ansi athyglisvert sumar. Að lokum vil ég benda á að allir möguleikar bjóða upp á mistök og hræðilegar uppákomur, það er okkar að njóta þeirra.

Skrifaðu ummæli