Verk sem sjaldan eða aldrei hafa verið flutt áður

0

Ljósmynd/Álfheiður Erla Guðmundsdóttir.

Fyrr á þessu ári fögnuðu Erla Dóra Vogler mezzósópran og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari aldarafmæli Jórunnar Viðar með tónleikahaldi henni til heiðurs og útgáfu geisladisks með söngvum hennar en hún hefði orðið 100 ára líkt og fullveldið, árið 2018. Það sem af er ári hafa Erla og Eva haldið ferna tónleika; í Berlín, Iðnó, Hofi og Tónlistarmiðstöð Austurlands, en fyrir liggja tvennir útgáfutónleikar og svo þrennir tónleikar til viðbótar á vegum Tónalands sem færast yfir á 2019.

Útgáfutónleikarnir fyrir geisladiskinn þeirra, JÓRUNN VIÐAR – SÖNGVAR, verða haldnir á 100 ára afmælisdegi Jórunnar föstudaginn 7. desember kl. 20:00 í Hannesarholti. Uppselt er á tónleikana, en miðasala stendur yfir á Tix.is fyrir auka útgáfutónleikana þeirra daginn eftir, 8. desember, kl. 17:00. Að loknum útgáfutónleikum fara svo geisladiskarnir í sölu.

Álfheiður Erla Guðmundsdóttir ljósmyndar, hönnuður og söngkona hannaði hulstrið.

Á geisladisknum og tónleikadagskránni eru verk sem sjaldan eða aldrei hafa verið flutt áður, eins og Únglíngurinn í skóginum II og Ung stúlka, í bland við mörg hennar frægustu lög og þjóðlagaútsetningar. Alls eru 26 sönglög og þjóðlög á geisladisknum.

„Það hefur verið í ýmis horn að líta og mikill tími hefur farið í að hreinskrifa óútgefnar nótur frá Jórunni og fara í gegnum lög sem ekki hafa verið gefin út á geisladiski áður.“ – Eva Þyri.

Erla Dóra Vogler og Eva Þyri Hilmarsdóttir sjá um Flutning og útgáfu en útgáfan er styrkt af Samfélagssjóði Landsbankans og hljómdiskasjóði FÍT, auk þess sem hún var gerð möguleg með áheitum á Karolina Fund. Bjarni Rúnar Bjarnason og Georg Magnússon sáu um hljóð.

Skrifaðu ummæli